Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í júní 2015 námu 267 milljónum króna, og af því voru almenn lán 249 milljónir. Til samanburðar námu almenn útlán í sama mánuði í fyrra 417 milljónum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 10,4 milljónir króna. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Hlutfall undirliggjandi lánavirðis einstaklinga í vanskilum lækkaði í mánuðinum. Í lok júní nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga rúmlega 3,2 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 34,4 milljarðar króna eða um 6,7% útlána sjóðsins til einstaklinga, samanborið við 9,73% í júní 2014.

Heimili í vanskilum eru 1.846 og þar af eru 51 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru 4,33% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok júní 2015. Sambærilegt hlutfall í lok maí var 4,34%.