Ríki Pakistan hefur staðið í ströngu við að bæta fjármálaumhverfi ríkisins síðan Nawaz Sharif, núverandi forsætisráðherra, tók við embætti. Ríkinu hefur tekist að stemma stigu við uppgangi hryðjuverkamanna og hagvexti upp á 4,5% er spáð á árinu. Fréttaveita Bloomberg fjallar um þetta.

Þrátt fyrir góðar umbætur hefur gengi skuldatryggingarbréfa ríkisins hækkað um heila 56 punkta í síðustu viku. Ástæðuna má rekja til þess að ríkið er skuldsett upp í rjáfur, ef svo má að orði komast, og skuldadagar eru rétt handan við hornið.

Ríkið áætlar að greiða af heila 50 milljarða bandaríkjadala af skuldum í ár - en fjárhæðin nemur einhverjum 6.500 milljörðum íslenskra króna. Upphæðin nemur nánast þrefaldri vergri framleiðslu Íslands - en er aðeins um 42% heildarskuldsetningar pakistanska ríkisins.

Gengi skuldatrygginga getur gefið mynd af væntingum fjárfesta í garð ríkisvaldsins - en hærra gengi þýðir að markaðurinn meti sem svo að líklegra sé að greiðslufall verði á skuldbindingum ríkisins, hvort sem um ræðir skuldabréf eða stærri lán frá stofnunum á borð við AGS.