*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Fólk 9. október 2019 16:24

Vanskilum í ferðaþjónustu fjölgar

Ferðaþjónustufyrirtækjum á vanskilaskrá hefur fjölgað um nærri 15% á síðustu 12 mánuðum.

Ritstjórn
Ferðamenn á fer um Miðbakka í Reykjavík.
Haraldur Guðjónsson

Hlutfall ferðaþjónustufyrirtækja í vanskilum fer hækkandi, að því kemur fram í nýrri útgáfu Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands. Hlutfallið í lok nýliðins ágústmánaðar var tæplega 15% en var rúmlega 13% á sama tíma fyrir ári síðan.   

„Niðurfærslur á lánum til greinarinnar [ferðaþjónustu] hafa aukist lítillega á árinu en eru enn óverulegar. Ferðaþjónustufyrirtækjum á vanskilaskrá hefur aftur á móti fjölgað um nærri 15% á síðustu 12 mánuðum,“ segir ennfremur í umfjöllun Fjármálastöðugleika um breytt rekstrarumhverfi í ferðaþjónustu. 

Viðbúið sé að næsti vetur verði ferðaþjónustunni erfiður en greinin gangi nú í fyrsta skipti í langan tíma í gegnum samdrátt eftir mikinn uppgang nær samfleytt frá árinu 2010.  

„Áframhaldandi samdráttur í sætaframboði, færri leitir með Google og versnandi efnahagsumhverfi á evrusvæðinu og í Bretlandi gæti bent til áframhaldandi samdráttar í greininni, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Ferðaþjónustan er í samkeppni við ferðamannastaði erlendis en þar sem greinin er mannaflsfrek hafa samkeppnisskilyrði versnað í kjölfar launahækkana hér á landi. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa á síðustu mánuðum brugðist við breyttu rekstrarumhverfi með hagræðingu í rekstri, meðal annars með fækkun starfsfólks. Rekstrarerfiðleikar hafa stuðlað að samruna fyrirtækja í greininni og leitt til aukinnar samþjöppunar í lánasöfnun bankanna sem kann að auka mótaðilaáhættu þeirra. Bankarnir verða að búa sig undir áframhaldandi samdrátt í greininni og vaxandi mótaðilaáhættu sem getur komið í fram í auknum vanskilum og útlánatöpum.“