*

þriðjudagur, 17. september 2019
Innlent 2. nóvember 2016 12:12

Vantar 230 milljarða í innviði landsins

Gamma segir uppsafnaða fjárfestingarþörf hér á landi nema 230 milljörðum og heildarumfang mögulegra verkefna 900 milljarðar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum hér á landi nemur um 230 milljörðum íslenskra króna að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Gamma.

Er mat þeirra að á næstu sjö til tíu árum þurfi að fjárfesta í innviðum hér á landi fyrir hátt í 600 milljarða króna, en þeir segja að hið opinbera standi tæplega undir þessum háu fjárhæðum.

Heildarumfang 900 milljarðar króna

Hins vegar gætu fjárfestar bæði haft áhuga og ávinning af því að koma að stökum verkefnum með ríkinu en heildarumfang verkefna sem nefnd eru í skýrslunni og eru talin henta í einkafjármögnun nemur um 900 milljörðum króna.

Nefna þeir þar á meðal verkefni á borð við Sundabraut, stækkun Keflavíkurflugvallar, nýjan Landspítala, hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og rafstreng milli Íslands og Bretlands, auk smærri verkefna.

Innviðafjárfesting fallið í allri Evrópu

Í skýrslunni kemur fram að innviðafjárfesting í Evrópu, sem hlutfall af landsframleiðslu hafi fallið úr 5% niður í 2,5%, en að minnsta kosti þurfi 4,1% til að viðhalda vexti.

Mat Gamma er að kjörhlutfall slíkrar fjárfestingar hér á landi væri 5,5%, en hún hafi náð botni árið 2012 og farið niður í 2,5% og nú sé hún rétt yfir 3%.

Hentug verkefni vegna áhættudreifingar og stöðugleika

Í skýrslunni kemur fram að fjárfestar sjái hag í þátttöku í slíkum verkefnum vegna stöðugleika þeirra fremur en að þeir vænti af þeim mikils hagnaðar.

Sé vegna þess að sveiflur á markaði komi ekki endilega niður á ávöxtun og því henti fjármögnunarverkefni af þessum toga til að dreifa áhættu.

Finna fyrir miklum áhuga stórra innviðafjárfesta

„Við höfum fundað með stórum innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins og finnum fyrir miklum áhuga þeirra á að fjárfesta í innviðaverkefnum hér landi, Stærstu verkefnin eru orðin nógu stór til að vekja athygli þeirra.““ segir Gísli Hauksson, forstjóri Gamma.

„Nú er tækifæri að fá langtímafjárfesta að verkefnum, þar með talið erlenda aðila sem eru mjög áhugasamir og gera ekki háa ávöxtunarkröfu á sama tíma og vextir í heiminum eru í sögulegu lágmarki.“