*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 22. febrúar 2017 13:14

Vantar 3,2 milljarða í Vaðlaheiðargöng

Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng eru komin um 30% fram úr áætlunum en þau áttu að vera tilbúin í desember síðastliðnum.

Ritstjórn
Skapti Hallgrímsson

Vaðlaheiðargöng eru komin 30% fram úr áætlun og vantar rúma 3,2 milljarða króna að núvirði upp á miðað við upphaflega áætlun þegar virðisaukaskattur hefur verið lagður á 

Þetta kemur fram í nýjustu tölum stjórnenda verkefnisins, en samkvæmt verðlagi ársins 2011 er kostnaðurinn kominn í rúma 11 milljarða, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Áttu að kosta tæpa 8 milljarða

Upphaflega stóð til að göngin myndu kosta 7.730 milljónir króna auk virðisaukaskatts samkvæmt verðlagi ársins 2011, en Ágúst Torfi Hauksson stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga segir að nú vanti um 27 til 30% umfram það, ef frá eru taldar verðbætur á framkvæmdatíma.

„Það þarf viðbótarlán og það er verið að ræða það bæði við Seðlabanka og fjármálaráðuneytið," segir Ágúst Torfi sem í greininni vísar í áföll sem dunið hafi á verkefninu.

„Varðandi kostnað vegna leka báðum megin þá er það enn í vinnslu og endanlegur kostnaður vegna þessara frávika mun ekki liggja fyrir fyrr en dregur nær verklokum."

Verkkaupinn hefur greitt tæpa 7 milljarða

Verklok eru áætlun 2018 en verkkaupinn Vaðlaheiðargöng hf. er búinn að greiða um 6,8 milljarða fyrir verkið auk 800 milljóna í verðbætur.

Upphaflega voru verklok áætluð í desember 2016, en vatnslekar auk hruns og annarra uppákoma hafa tafið verkframvindu um eitt og hálft ár miðað við bjartsýnustu spár.

„Nú er verið að fara í gegnum setlag Eyjafjarðarmegin sem tefur verkframvindu en unnið er á báðum stöfnum núna og hefur verið frá því í nóvember," segir Ágúst Torfi.

Ríkið lánaði eftir að lífeyrissjóðir bökkuðu út

Ríkið lánaði í júní 2012 8,7 milljarða króna til verkefnisins sem á að endurfjármagna árið 2018 með útgáfu verðtryggðs skuldabréfs, en þá áttu göngin að vera orðin sjálfbær með innheimtu veggjalds. 

Upphaflega var gert ráð fyrir þátttöku lífeyrissjóðanna í verkefninu. Nú eru göngin orðin 6.764,5 metra löng og því búið að grafa 93% af heildarlengd þeirra.