Financial Times heldur því fram í morgun að afgreiðslu lánsumsóknar til Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) hafi verið frestað um óákveðinn tíma en væntingar höfðu verið um að stjórn sjóðsins afgreiddi málið innan skamms.

Í fréttinni er því haldið fram að það hafi vantað sem svarar 500 milljónum dollara til að klára lánapakkann og það valdi töfinni.

Afgreiðsla stjórnar IMF er nauðsynleg þar sem Danmörk, Svíþjóð og Noregur hafa öll bundið lánveitingu sína slíkum skilyrðum.

Ísland gerði samkomulag við IMF 24. október síðastliðinn um að fá 2,1 milljarð Bandaríkjadala frá sjóðnum. Það var bundið samþykkt stjórnar sjóðsins. Í fyrstu var ætlunin að taka málið fyrir á þriðjudaginn í síðustu viku en var síðan frestað til föstudags. Þá urðu enn tafir til mánudags en nú virðist málið vera í lausu lofti ef marka má frétt Financial Times.