Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, lærði rafmagnsverkfræði á níunda áratugnum voru konur ekki margar í því námi á þeim tíma. „Við vorum tvær í mínum árgangi og ég held að það hafi verið ein kona í árganginum á undan. Þetta hefur þó eitthvað breyst síðan þá sem betur fer.“

Hún segir að þegar komi að forritun sé hlutfall kvenna mun betra en í innviðatækniþjónustu eins og þeirri sem Sensa starfar í. „Hlutföllin í innviðunum eru hræðileg og við höfum lagt mikið á okkur við að bæta þau, en það hefur reynst erfitt. Við erum í samstarfi við Háskólann í Reykjavík um að auka þekkingu á þessu sviði. Þetta eru tólf manna kúrsar og þar hafa konur verið 2-3 talsins. Ég á svolítið erfitt með að skilja þetta, því starfið getur skilað þér mjög góðum tekjum og vinnutíminn er miklu skaplegri en hann var í gamla daga. Það þekktist áður fyrr að vinna þurfti mikið um helgar og á frídögum, en það gerist ekki lengur. Þá eru atvinnumöguleikarnir mjög miklir og takmarkast ekki við Ísland.

Eins og ég nefndi hér áðan þá geta sérfræðingar á þessu sviði unnið hvar sem er í heiminum. En konur í tölvunarfræði eru miklu líklegri til að fara í forritun, af einhverri ástæðu. Hugsanlega er ímyndin sem fólk hefur af okkur að fæla þær frá, þ.e. að fólk á þessu sviði séu allt einhverjir skelfilegir nördar. Vissulega erum við það nokkur, en því fer fjarri að starfsfólk fari úr vinnunni og haldi svo allt áfram að leika sér eða vinna í tölvum heima hjá sér.“

Nánar er rætt við Valgerði í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem má nálgast hér.