"Á þeim rúmlega 10 árum sem samkeppnislög hafa verið í gildi hér á landi hafa orðið grundvallarbreytingar á umhverfi íslensks viðskiptalífs. Sumpart eru þessar breytingar hluti og afleiðing af alþjóðlegri þróun. Milliríkjaviðskipti hafa aukist vegna minnkandi viðskiptahafta og fjármagn flæðir nú hindrunarlítið heimshorna á milli eftir því hvar arðsemi þess er mest." Þetta kemur fram í skrifum Georgs Ólafssonar forstjóra Samkeppnisstofnunar í nýrri ársskýrslu stofnunarinnar.

Í grein sinni segir Georg að veigamikill þáttur í breyttu viðskiptaumhverfi á Íslandi byggist á breyttu lagaumhverfi sem á meðal annars rætur að rekja til skuldbindinga sem Íslendingar hafa gengist undir með aðild að alþjóðasamningum svo sem EES-samningnum. "Með afnámi viðskiptahafta og einkaleyfa og með auknu viðskiptafrelsi hefur hvarvetna þótt eðlilegt og í raun nauðsynlegt að koma á eftirliti með því að viðskiptafrelsið sé nýtt til hagsbóta fyrir alla en það sé ekki misnotað til að skara eld að köku fárra útvalinna," segir Georg.

Hann bendir ennfremur á að í tengslum við breyttar áherslur stjórnvalda og aukið viðskiptafrelsi voru sett almenn samkeppnislög árið 1993 sem ná til alls viðskiptalífsins, hvort heldur um einkarekstur eða opinberan rekstur er að ræða. Það ár tók Samkeppnisstofnun til starfa. Til að sinna eftirliti með sérstökum mörkuðum þar sem fyrirtæki stunda leyfisbundna starfsemi hafa á grundvelli sérlaga tekið til starfa nýjar eftirlitsstofnanir eða stofnanir sem
byggja á eldri grunni og sinna nú nýjum verkefnum. Hér má nefna Póst- og fjarskiptastofnun, Fjármálaeftirlitið og Orkustofnun. Eftir að samkeppnislögin tóku gildi hefur Samkeppnisstofnun verið falið margháttað hlutverk á grundvelli annarra laga s.s. fjarskiptalaga, laga um neytendalán, laga um alferðir, laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga, laga um rafræn
viðskipti og raforkulaga.

Eftir því sem viðskiptalífið og umhverfi þess hefur verið að breytast hafa verkefni eftirlitsstofnana þróast og þeim fjölgað. Í fyrri ársskýrslum Samkeppnisstofnunar hefur verið bent á að kraftar samkeppnisyfirvalda hafi á síðustu árum í síauknum mæli farið í að sinna eftirliti og athugunum á samkeppnishindrandi samráði fyrirtækja og samkeppnishamlandi
hegðun markaðsráðandi fyrirtækja. Þessi verkefni eru mörg hver mjög umfangsmikil þar sem rannsakaðir eru viðskiptahættir og gögn frá stórfyrirtækjum á íslenskan mælikvarða sem ná yfir allt að níu ára tímabil.
Starfsmannahald hjá Samkeppnisstofnun hefur ekki þróast í samræmi við hin auknu umsvif stofnunarinnar. Það hefur valdið því að aðilar, sem reka mál fyrir Samkeppnisstofnun, hafa oft á tíðum þurft að bíða óheppilega lengi eftir niðurstöðu mála. Í upphafi ársins 2003 biðu 80-90 samkeppnismál úrlausnar hjá Samkeppnisstofnun. Vegna umfangsmikillar vinnu við rannsókn á meintu ólögmætu samráði olíufélaganna og vinnu við önnur stór mál var fyrirséð að dráttur yrði á því að unnt yrði að ljúka vinnslu fyrirliggjandi mála innan æskilegs tíma. Til að takast á við þennan vanda neyddust samkeppnisyfirvöld því til að taka upp formlega forgangsröðun
mála hjá samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar á árinu 2003. Það var gert í samræmi við heimild í samkeppnislögum. Þetta hafði í för með sér að allnokkrir aðilar, sem með rökum töldu á sér brotið með vísan til samkeppnislaga, þurftu að bíða í allt að eitt ár áður en
málsmeðferð gæti hafist.

Í ársskýrslunni segir Georg að það sé mat Samkeppnisstofnunar að stjórnvöld þurfi að horfast í augu við þá staðreynd að íslenskt viðskiptalíf hefur þróast þannig síðastliðin 10 ár að nauðsynlegt er að hér starfi öflug og virk samkeppnisyfirvöld sem hafi yfir að ráða bestu mögulegu meðulum til að uppræta og koma í veg fyrir samkeppnishömlur.

"Löggjöfin sem við búum við er að flestu leyti í samræmi við það sem er nýjast og best í evrópskri samkeppnislöggjöf. Hins vegar er ljóst að samkeppnisyfirvöld komast að óbreyttu illa yfir að sinna nauðsynlegum verkefnum. Reynslan sýnir að sökum mannfæðar fer reglubundin starfsemi Samkeppnisstofnunar úr skorðum þegar tekist er á við fleiri en eitt umfangsmikið verkefni í einu. Stofnunin á fullt í fangi með að sinna þeim kærum og kvörtunum sem henni berast. Það er ótækt að ekki sé unnt að taka til rannsóknar að eigin frumkvæði atvik eða aðstæður sem hugsanlega fela í sér alvarlegar samkeppnishindranir sem eru til skaða fyrir samfélagið. Stofnunin þarf ávallt að vera í stakk búin að geta sinnt að eigin frumkvæði rannsóknum á meintum alvarlegum brotum eða rannsóknum á einstökum mörkuðum þar sem ætla má að samkeppni sé hætta búin," segir Georg.

Hann bendir ennfremur á að Samkeppnisstofnun sýni því fullan skilning að gæta beri aðhalds og sparnaðar í rekstri hins opinbera svo að hamla megi því að ríkisútgjöld fari úr böndunum. "Brugðið hefur verið á það ráð, við skipan sérhæfðs eftirlits með leyfisskildum aðilum hér á landi, að innheimta hjá þeim gjöld sem standa eiga straum af þeim kostnaði sem hlýst af eftirliti með þeim. Þannig greiða eftirlitsskyldir aðilar á fjármála- og vátryggingamörkuðum eftirlitsgjald sem ætlað er að fjármagna starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitsskyldir aðilar á fjarskipta- og póstmörkuðum greiða gjöld sem ætlað er að standa undir rekstri Póst- og
fjarskiptastofnunar og ráð er fyrir því gert að fyrirtæki á raforkumarkaði greiði í ríkissjóð ígildi þess sem það kostar Orkustofnun að hafa eftirlit með þeim. Með þessu ætti að vera tryggt að tekjur umræddra stofnana séu í nokkru samræmi við nauðsynlegan kostnað sem hlýst af eftirlitsstarfsemi þeirra. Tekjur Samkeppnisstofnunar eru hins vegar að öllu leyti
ákveðnar í fjárlögum. Þegar Samkeppnisstofnun tók til starfa var kostnaði stofnunarinnar jafnað við kostnaðinn af rekstri Verðlagsstofnunnar þó að verkefni þessara stofnana væru í eðli sínu ólík og kostnaður við mannahald ekki sambærilegur. Þegar samkeppnislög voru sett var ekkert sjálfstætt mat lagt á það hver yrði líklegur kostnaður Samkeppnisstofnunar
við að framfylgja lögunum. Það hefur heldur aldrei verið gert síðan. Núverandi staða stofnunarinnar endurspeglar því tiltekinn fortíðarvanda.
Hér er varpað fram þeirri hugmynd að reynt verði að meta, af reynslu síðustu tíu ára, hver þörfin sé fyrir eftirlit samkeppnisyfirvalda með íslensku viðskiptalífi og hver sé áætlaður kostnaður af því eftirliti auk eftirlits sem Samkeppnisstofnun er ætlað að sinna á grundvelli annarra laga en samkeppnislaga. Síðan mætti kanna hvort ekki sé eðlilegt og sanngjarnt að eftirlitsskyldir aðilar greiði að hluta eða öllu leyti kostnaðinn við
samkeppniseftirlitið eða tiltekna þætti þess. Fordæmi eru fyrir því erlendis að gjöld, sem lögð eru á fyrirtæki sem falla undir verksvið samkeppnislaga, standi straum af kostnaði við að framfylgja lögunum. Ekki þarf á þessum vettvangi að fjölyrða um gildi virkrar samkeppni í viðskiptum. Það
er löngu þekkt að virk samkeppni er mikilvæg undirstaða efnahagslegra framfara. Samkeppnisyfirvöld eiga að stuðla að því að virk samkeppni sé ekki hindruð enda skaða samkeppnishindranir hag alls almennings þegar til lengri tíma er litið. Það er miður þegar mannekla kemur í veg fyrir að samkeppnisyfirvöld sinni því mikilvæga hlutverki sem þeim
er ætlað með þeim brag sem æskilegur er. Það skaðar fyrirtæki sem verða fyrir því að samkeppnislög eru brotin og það veldur neytendum ómældum skaða. Það hafa oft blásið stríðir vindar um Samkeppnisstofnun og störf hennar og þannig mun það trúlega alltaf verða. Það felst að hluta í eðli starfseminnar en afskipti og íhlutun stjórnvalda í deilumál getur ekki orðið öllum til geðs. Ef undan eru skilin þröng sjónarmið fámennra hópa hefur ríkt um það sátt að samkeppnisreglur séu nauðsynlegar og sömuleiðis að öflug samkeppnisyfirvöld þurfi til að framfylgja reglunum. Með vísan
í þá þróun, sem verið hefur til aukinnar samþjöppunar og fákeppni á mörkuðum hér á landi á síðustu árum, hafa bæði fulltrúar frá samtökum í viðskiptalífinu, samtökum neytenda og launamanna ásamt stjórnmálamönnum rætt um nauðsyn þess að efla Samkeppnisstofnun. Um þetta virðist ríkja nokkur einhugur í samfélaginu. Samkeppnisstofnun tekur undir þau sjónarmið sem haldið hefur verið á lofti að öflugri
Samkeppnisstofnun leiðir til virkari samkeppni til hagsbóta fyrir heildina."