Hjálmar Gíslason, stofnandi Datamarket, segir að allnokkur fyrirtæki hafi náð eftirtektarverðum árangri á nýliðnu ári. Hann svaraði nokkrum spurningum fyrir Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið 2013 heilt yfir?
Persónulega hefur árið verið virkilega gott bæði í einkalífi og viðskiptum. Hvað íslenska viðskiptalífið varðar hafa verið nokkrir ljósir punktar, en heilt yfir eru það því miður hugtökin „stöðnun“ og „doði“ sem fyrst koma upp í hugann.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Þær atvinnugreinar sem eru – stundum bókstaflega – jarðtengdar Íslandi ganga flestar ágætlega. Þar eru líka ýmis tækifæri sem hægt er að nýta, jafnvel í núverandi viðskiptaumhverfi. Hér á ég við greinar eins og ferðageirann, sjávarútveginn, orkugeirann og aðra auðlindatengda starfsemi. Það voru líka jákvæðir punktar í nýsköpunarumhverfinu, þar sem allnokkur fyrirtæki náðu eftirtektarverðum árangri.

Hvernig hefur nýja ríkisstjórnin staðið sig?
Mér finnst eiginlega mest einkennandi hve lítið hefur sést til hennar í málefnum atvinnulífsins. Í orði kveðnu ætti hún að mörgu leyti að vera líklegri en síðasta stjórn til að skapa hér almennt og hagfellt efnahags- og viðskiptaumhverfi. Of margt af því sem hún hefur gert finnst mér þó hafa verkað einmitt á hinn veginn.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?
Með höft og stóra óvissuþætti hangandi yfir okkur, er atvinnulífið dæmt til að gera í besta falli meira af því sama. Fjölbreytileikinn sem svo sárlega vantar skapast ekki nema leyst verði úr þessum málum. Til þess þarf að marka skýra framtíðarsýn í efnahagsmálum og umgjörð atvinnulífsins. Það mun taka nokkur ár að komast á áfangastað, en væntingar mínar standa til þess að við fáum að sjá slíka framtíðarsýn á árinu og fyrstu skrefin tekin til að gera hana að veruleika.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru viðtöl við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði. Að auki er margt, margt fleira....