Vantraust fyrirtækja til lánastofnanna og óvissa um lögmæti gengistryggðra lána til fyrirtækja hefur haft letjandi áhrif á þátttöku í Beinu brautinni, sem ætlað var að hraða sem mest fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Í Peningamálum kemur fram að óvissan um gengistryggð lán ætti þó ekki að koma í veg fyrir þátttöku fyrirtækja, þar sem þau fyrirgera ekki rétti sínum til að fá dómsniðurstöðu í deilumál er tengjast gengistryggðum lánum með því taka þátt í Beinu brautinni.

Í Peningamálum segir m.a.: "Fjármálaleg skilyrði fyrirtækja eru einnig erfið og lítið um útlán í bankakerfinu til nýrra verkefna. Töf hefur orðið á endurskipulagningu fyrirtækja í skuldavanda. „Beina brautin“ svonefnda, sem er samkomulag sem undirritað var um miðjan desember sl. varðandi samræmdar aðgerðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja, gengur hægar en gert var ráð fyrir. Vantraust fyrirtækja til lánafyrirtækja og óvissa um lögmæti samninga um gengistryggð lán hefur haft letjandi áhrif á þátttöku í ferlinu, þótt óvissan ætti ekki að tefja framgang Beinu brautarinnar þar sem fyrirtæki fyrirgera engum rétti með því að þiggja þau úrræði sem standa til boða. Líklega er aukinn fjöldi árangurslausra fjárnáma undanfarna mánuði eðlileg eftirköst fjármálakreppunnar og endurspeglar því ekki aukinn vanda fyrirtækja nú. Árangurslaus fjárnám segja meira til um vanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja en gjaldþrot þar sem oft eru engar eignir til staðar hjá smærri fyrirtækjum og þau því ekki keyrð í gjaldþrot."