„Það munar mikið um 100 milljarða króna minni verðmætasköpun árið 2013 þegar litið er til starfa, atvinnuleysis, lífskjara, skatttekna og afkomu ríkissjóðs," segir í bréfi sem Samtök atvinnulífsins (SA) hefur sent þingmönnum. Það er gert í kjölfar yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi í gær þar sem hún sagði samtökin í grímulausri stjórnarandstöðu.

SA segir að nánast ekkert í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga hafi orðið að veruleika. Það rýri trúverðugleika ríkisstjórnina og hafi skapað vantraust í garð hennar í röðum atvinnulífsins.

„Skortur á fjárfestingum í atvinnulífinu er meginskýringin á því að ásættanlegur árangur næst ekki ásamt því að ríkisstjórnin hefur ekki sýnt raunverulegan vilja til þess að fjárfestingar aukist. Sérstaklega á þetta við um sjávarútveg og orkufrekan iðnað, helstu útflutningsgreinar Íslendinga. Eins hægir þetta á afkomubata ríkissjóðs," segir í bréfinu.

Vantraust í garð ríkisstjórnarinnar

Í bréfinu segir að mikið beri í milli á mati SA og ríkisstjórnarinnar á því hvernig tekist hafi til en veigamest af öllu sé að uppgangur í atvinnulífinu hafi ekki orðið eins og stefnt var að.

„Verst er að ríkisstjórnin hefur haft afar takmarkaðan áhuga á ýmsum málum og lítið eða ekkert sinnt þeim. Nánast ekkert af því sem rakið er í IV. kafla yfirlýsingarinnar, „Sókn í atvinnumálum", hefur orðið að veruleika. Þetta rýrir trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og hefur skapað vantraust í garð hennar í röðum atvinnulífsins," segir í bréfinu sem má lesa í heild á heimasíðu SA.