Vantraust almennings til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, hefur aukist verulega frá því að hún varð forsætisráðherra.

Þetta sýnir ný könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum sem birt var í gær. Frá því að MMR birti fyrstu könnun sína á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum hefur vantraust til Jóhönnu aldrei mælst meira en nú.

Tæplega 64% aðspurðra segjast bera „frekar eða mjög lítið“ traust til Jóhönnu og hafa nú aldrei verið fleiri. Til samanburðar sögðust rúmlega 19% aðspurðra bera lítið traust til Jóhönnu þegar hún varð forsætisráðherra í febrúar 2009.

Þeim fjölgar þó lítillega sem segjast bera „frekar eða mjög mikið“ traust til Jóhönnu. Í mars í fyrra sögðust 16,6% aðspurðra bera traust til Jóhönnu, samanborið við 17,4% nú.

Traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan má sjá þróunina á trausti til Jóhönnu frá því í desember 2008. Þar sést hvernig þeim hefur fækkað sem segjast treysta Jóhönnu, úr tæpl. 64% í rúmlega 17% nú. Í desember 2008 voru aðeins tæp 14% sem sögðust vantreysta Jóhönnu en eru nú sem fyrr segir um 64%.

Mikil lækkun á trausti hjá stuðningsmönnum Samfylkingarinnar

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á trausti til Jóhönnu flokkað eftir stuðningi almennings við stjórnmálaflokka. Þar sést hvernig traust til Jóhönnu hefur dalað í öllum flokkum frá því að könnunin var fyrst framkvæmd. Þá vekur athygli að fyrir utan það að hafa misst nær allt traust stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur Jóhann misst mest traust stuðningsmanna Samfylkingarinnar, hennar eigin flokks. Í desember 2008 sögðust 83% stuðningsmanna Samfylkingarinnar treysta Jóhönnu en nú segjast tæp 70% treysta henni.

Traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Mest hefur traustið minnkað meðal sjálfstæðismanna. Í desember 2008, þegar Jóhanna var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sögðust 64% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins treysta Jóhönnu. Í dag segjast aðeins 0,5% sjálfstæðismanna treysta Jóhönnu. Þá segjast 5,9% framsóknarmanna treysta Jóhönnu sem er þó aukning upp á rúm tvö prósentustig frá síðustu könnum sem gerð var í mars í fyrra. Eins og sjá má hefur traustfylgi við hana þó minnkað verulega meðal framsóknarmanna frá því í febrúar 2009.

Mesta sveiflan á traustfylgi Jóhönnu er þó sem fyrr meðal stuðningsmanna Vinstri grænna (VG). Í desember 2008 sögðust 65% stuðningsmanna VG treysta Jóhönnu. Þeim fjölgaði nokkuð í febrúar 2009, þegar Jóhanna varð forsætisráðherra í ríkisstjórn með VG, en þá sögðust 86% stuðningsmanna VG treysta Jóhönnu. Það traust hefur lækkað þó dalað nokkuð hratt þegar liðið hefur á ríkisstjórnarsamstarfið og var komið niður í 45% í maí 2010. Nú segjast um 60% stuðningsmanna VG treysta Jóhönnu.