Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ekki ríki traust til ríkisstjórnarinnar í samfélaginu. Það þurfi að komast að því innan Alþingis hvort ríkisstjórn njóti trausts þess.  Til umræðu á Alþingi er niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-deilunnar. Þar svaraði Bjarni munnlegri skýrslu forsætisráðherra um málið.

„Ríkisstjórnina skortir stuðning og ríkisstjórnina skortir traust,“ sagði Bjarni. Hann sagði það hagsmuni þjóðarinnar að boðað verði til kosninga sem fyrst.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Þess er krafist að þing verði rofið 11. maí og boðað verði til kosninga hið fyrsta.

Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins:

„Vantrausti lýst á ríkisstjórnina og kosninga krafist

Sjálfstæðisflokkurinn lagði á alþingi í dag fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Þess er krafist að þing verði rofið 11. maí og boðað verði til kosninga hið fyrsta.

Algjör stöðnun ríkir í  atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir er ófær um að leysa þau verkefni sem henni hafa verið falin í stóru jafnt sem smáu.  Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um liðna helgi er aðeins enn ein birtingarmynd þess vanda sem ríkisstjórnin á við að etja.

Við slíkar aðstæður og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi ber Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og efna til alþingiskosninga.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu liðinnar helgi snýr ekki einungis að ríkisstjórninni heldur einnig að alþingi.  Drjúgur meiri hluti alþingismanna studdi samningana með atkvæði sínu en þjóðin hafnaði þeim í almennum kosningum.  Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt fyrir alþingismenn að sækja sér nýtt umboð hjá þjóðinni og slíkt verður aðeins gert með þingkosningum.  Slíkt skref af hálfu alþingis er mikilvægt til þess að skapa aukið traust á milli þings og þjóðar.

Lykillinn að viðreisn landsins er sá að skapa verðmæti.  Það þarf að greiða fyrir erlendri fjárfestingu og sá fræjum fyrir uppskeru sem skilar sér í atvinnu á næstu árum. Íslenska þjóðin þarf sárlega á hagvexti að halda svo skapa megi störf handa þeim þúsundum Íslendinga sem nú eru án atvinnu.  Ríkisstjórnin hefur reynst óhæf til þess að leysa þessi verkefni.  Sú stöðnun sem hún ber ábyrgð á og lýsa má sem almennu átaki hennar gegn atvinnuuppbyggingu í landinu, hefur valdið gríðarlegu tjóni sem einungis mun aukast að óbreyttu.

Afrekalistinn á þessu sviði er langur. Óvissa í rekstarumhverfi og fjandsamleg afstaða gagnvart fjárfestingum, auknir skattar og álögur, skuldavandi heimila og fyrirtækja viðvarandi og landflótti vegna atvinnuleysis. Á meðan fólk flýr land í leit að vinnu hafa Íslandi boðist fjölmörg  tækifæri til atvinnusköpunar frá erlendum fjárfestum. Ríkisstjórninni hafa ekki hugnast þau verkefni.

Ákvarðanir virðast teknar eftir geðþótta en ekki eftir stefnu eða þörfum þjóðarinnar.  Ríkisstjórnin hefur hvað eftir annað þvælst fyrir nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu á ólíkum stigum stjórnsýslu og engu skiptir einstaka ráðherra þótt þeir séu dæmdir fyrir þessar fráleitu tilraunir sínar.

Þessi ríkisstjórn hefur engan vilja til samstarfs, hvorki við aðila vinnumarkaðarins né á hinu pólitíska sviði. Berlega kom í ljós þegar ákvörðun var tekin á fundi Norður-Atlantshafsráðsins um að taka yfir hernaðaraðgerðir í Líbýu, að samráð er ekki haft milli flokkanna um mikilvægar ákvarðanir.   Öll sú orka sem fara á í að vinna þjóðinni gagn fer í innanflokksátök. Stjórnarflokkarnir eru jafnvel ósammála um þau mál sem þeir sjálfir leggja fram á Alþingi. Umsókn Íslands að Evrópusambandinu, fyrningarleið í sjávarútvegi og  fjárlög hafa orðið að deiluefni bæði innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra.

Einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin,  hefur sett endurreisn landsins í gíslingu í einstrengingslegum tilraunum sínum til að þvinga þjóðina í Evrópusambandið – studd af vinstri grænum sem virðast láta sér vel líka – þrátt fyrir stefnu flokksins í aðra átt. Augljóst er, að aðild að ESB er í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar og aðildarferlið einungis til þess fallið að auka enn frekar á sundrungu og erfiðleika hennar.

Grunngildi og lög hafa verið virt að vettugi hjá stjórnarflokkunum.  Forsætisráðherra hefur brotið jafnréttislög og umhverfisráðherra var dæmdur fyrir fyrir lögbrot í tengslum við aðalskipulag Flóahrepps. Þá voru fyrstu almennu kosningarnar sem dæmdar voru ógildar haldnar á vakt þessarar ríkisstjórnar og í framhaldi sniðgekk hún niðurstöðu Hæstaréttar Íslands.

Ríkisstjórnina skortir stuðning og traust fólksins í landinu. Hún forgangsraðar ekki í þágu Íslendinga, skortir framtíðarsýn og skilning á því að í mannauði þjóðarinnar felast verðmætin.

Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“