Stjórnarandstaðan mun leggja fram vantrausttillög tillögu um vantraust, þingrof og kosningar á Alþingi á morgun eða miðvikudaginn. Þetta kemur fram í frétt Kjarnans í morgun.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar munu funda í fyrramálið, en þing kemur saman klukkan 15 á morgun og hefst dagskrá á óundirbúnum fyrirspurnum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra verða báðir til andsvara.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, væntir þess að tillaga um vantraust, þingrof og kosningar verði dreift til þingmanna á morgun.

„Ég held að eftir kvöldið, eftir það sem hefur komið fram um hvernig Sigmundur afsalaði sér sínum hlut í félaginu degi áður en lög gengu í gildi, þar sem hann reyndi að hylma yfir sannleikann í viðtalinu sem var sýnt úr, þá hefði ég talið eðlilegt að hann stigi til hliðar,” segir hún.

Áður hafði Birgitta Jónsdóttir tekið í sama streng og sagði hún í viðtali í gær að það verði að leggja fram vantraust við upphaf þingfundar, svo framarlega sem forsætisráðherra verði ekki búinn að segja af sér fyrir þann tíma.