Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram á Alþingi tillögu um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Einfaldur meirihluti þarf að samþykkja tillöguna svo hún nái fram að ganga.

Formaður Framsóknarflokksins segir að nú reyni á hvort athafnir fylgi orðum.

Meginefni tillögunnar er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 31. desember og efnt til almennra þingkosninga í framhaldinu."

Flutninsmenn tillögunnar eru, sem áður sagði, þau Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Reynir á hvort athafnir fylgi orðum

Valgerður segir í samtali við Viðskiptablaðið að nú reyni á hvort athafnir fylgi orðum. Vísar hún þar til þeirra ummæla að minnsta kosti tveggja ráðherra Samfylkingarinnar að kjósa eigi í vor svo Alþingi geti endurnýjað umboð sitt.

Valgerður segir að yrði þing rofið á gamlársdag væri hægt að efna til kosninga um miðjan febrúar. Með samkomulagi væri þó hægt að fresta kosningum fram á vor.