Launakjör Höskuldar H. Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, hafa verið mikið til umræðu í íslensku samfélagi frá því að það var kunngjört í ársreikningi Arion að hann fengi 2,9 milljónir króna á mánuði í laun. Auk þess fékk hann 10 milljóna króna eingreiðslu fyrir að taka að sér starf bankastjóra Arion

Höskuldur hefur ekki mikið um þessu umræðu að segja.  „Ég tók að mér starf og var boðinn ákveðinn kjarapakki fyrir að taka því. Ég hef ekki fengið neina hækkun frá því ég byrjaði hér heldur var ég ráðinn inn á ákveðnum kjörum. Ég var í öðru starfi. Þetta eru reyndar svolítið hærri laun en ég hafði þar. Þetta eru bara þau kjör sem mér voru boðin og ég ákvað að gangast inn á. Ég hef ekkert meira um það að segja.“

Ekki viðeigandi að tjá sig

Launakjör Höskuldar hafa dregið dilk á eftir sér. Um þarsíðustu helgi var greint frá því að umboð fulltrúa bankasýslu ríkisins í stjórn Arion banka verði ekki endurnýjað vegna þess að hann hafi greitt atkvæði með því að Höskuldi yrði boðið umrædd laun. Höskuldur segir að það sé ekki viðeigandi að hann hafi skoðun á þessu máli. „Það er ekki viðeigandi að ég tjái mig um það sem eigendur bankans eru að sýsla.“

Ítarlegt viðtal er við Höskuld í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast það undir liðnum tölublöð hér að ofan.