*

mánudagur, 30. mars 2020
Innlent 13. nóvember 2019 15:25

Var fyrir tilviljun á skrifstofu Samherja

Kristján Þór Júlíusson segir algjöra tilviljun að hann hitti namibíska viðskiptafélaga Samherja.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra var stjórnarformaður Samherja á árunum 1996-1998.
Haraldur Guðjónsson

„Eins og heimildarmaður þáttarins hefur lýst að þá fyrir rúmum fimm árum rek ég þarna inn nefið og heilsa þessum mönnum og á við þá spjall um daginn og veginn en grundvallaratriði í þessum málum fyrir mig er að ég hef engin afskipti af þessu eða upplýsingar um viðskipti eða neitt því um líkt og þar af leiðandi hef ég ekkert að fela í þessum efnum.“

Þetta segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra í viðtali á RÚV í dag, en hann segir jafnframt það algjöra tilviljun að hann hafi verið staddur á skrifstofu Samherja á sama tíma og viðskiptafélagar Samherja frá Namibíu voru þar á fundi.   

Helsti heimildarmaður í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld, Jóhannes Stefánsson, fyrrum starfsmaður Samherja, greindi frá því að Kristján Þór hafi hitt svokallaða hákarla frá Namibíu, þremenningana Tamson, James og Sacky, á fundi í höfuðstöðvum Samherja í Borgartúni árið 2014. Á fundinum er forstjóri Samherja Þorsteinn Már Baldvinsson sagður hafa kynnt Kristján sem "sinn mann" í ríkisstjórninni.

Kristján Þór var formaður stjórnar Samherja á árinu 1996-98. 

„Ég hef ekki haft afskipti af þessu fyrirtæki, rekstri eða öðru, frá því að ég hætti í stjórn fyrir tæpum tveimur áratugum; nítján árum. En auðvitað hefur maður taugar til fyrirtækisins og starfseminnar fyrir norðan. Eðlilega, þetta er stór partur af  norðlensku samfélagi,“ segir Kristján og bætir við síðar í viðtalinu.

„Þannig hittist bara á í þessu tilfelli að ég á persónulegan fund með einstaklingi sem ég hef þekkt í langan tíma um allt önnur mál að þá rekst ég á þessa einstaklinga,“ sagði Kristján og bætti því við að Samherjamenn verði að svara því sjálfir hvað átt var við þegar hann var sagður vera þeirra maður.