Helgi S. Gunnarsson var ráðinn fyrsti starfsmaður Regins þegar Landsbankinn stofnaði félagið eftir bankahrunið. Félagið fór fljótt úr því að halda utan um yfirteknar eignir í að vera eitt stærsta fasteignafélag landsins, en meðal eigna Reginseru Smáralind og Egilshöll. Helgi segir mikið hafa gengið á frá því að félagið var stofnað árið 2009. Reginn hafi notið góðs af því að vera fyrsta fasteignafélagið sem skráð var í Kauphöllina. Þá fóru þrjú og hálft ár í að koma fataversluninni H&M til landsins.

Búið til eftir hrun

Gætirðu sagt mér frá hugmyndinni á bak við Regin og hver stefna félagsins er?

„Það sem er sérstakt við Reginn er að fyrirtækið er búið til eftir hrun, þetta er eina félagið í kauphöll sem var sérstaklega byggt upp gagngert til þess að selja með skráningu á markaði. Landsbankinn fór þessa leið að búa til fasteignafélag til þess að taka við eignum úr hruninu, ég var ráðinn sem fyrsti starfsmaður og fékk það hlutverk að leiða þessa vegferð. Þetta var vorið 2009 og markmiðið var að annaðhvort selja allar þessar eignir eða búa til skráð félag. Síðan þá erum við búin að byggja upp næststærsta fasteignafélag landsins á þessum tíma.

Það hefur gengið mjög vel hjá okkur en það hefur líka gengið mikið á og þetta hefur verið skemmtileg vegferð. Þessi bakgrunnur okkar gerir okkur svolítið öðruvísi en hin félögin sem eru á markaðnum og eru að keppa við okkur, eins og Reiti og Eik, því við erum búin til eftir hrun á meðan bæði þau félög koma út úr hruninu og fara í gegnum endurskipulagningu. Að sjálfsögðu eru öll þessi félög orðin mjög svipuð núna, Reitir eru stærstir og við erum aðeins stærri en Eik, en út af þessu hefur Reginn aðeins öðruvísi reynslu. Við höfum þá reynslu að vera fyrirtæki sem er að byggja upp safnið og kaupa eignir, allar eignir sem eru inni hjá okkur hafa verið keyptar á síðustu sex árum og það er náttúrulega mjög sérstakt.

Við höfum líka breytt félaginu, þegar við byrjuðum vorum við umbreytingarfélag, búin að taka þessi stóru söfn og umbreyta þeim, en eðli starfa hefur þróast með tímanum og það hefur svolítið þurft að breyta starfsmannaáherslum. Það var kúvending á samsetningu og sérhæfingu starfsmanna þegar félagið fór að verða meira rekstrarfélag og minnka það að kaupa inn söfn sem eru í þróun, enda breyttist þar eðli fyrirtækisins og þar af leiðandi starfsemin.“

Viðtalið við Helga má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.