Fyrir 10 árum byrjaði Gordon Brown, þá fjármálaráðherra Breta, að selja meira en helminginn af öllum gullforða ríkisins. Þá var verðið 282 dollarar únsan. Í dag kostar gullúnsan yfir 900 dollara.

Salan fór fram á sautján uppboðum á árunum 1999-2002 og voru seld alls 395 tonn af gulli. Fyrir það fengust 2,2 milljarðar punda eða 277 dollarar á únsuna að meðaltali.

Þegar ákveðið var að hefja gullsöluna árið 1999 gaf fjármálaráðuneytið þá skýringu að næstum helmingur af öllum gjaldeyrisvarasjóðinum væri festur í gulli og það væri of einhæft. Breyta þyrfti hluta gullforðans í erlendan gjaldeyri, þar á meðal evru.

Frá árinu 2002 hefur verð á gulli verið á stöðugri uppleið og er nú komið yfir 900 dollarar únsan eins og áður kom fram.

Í frétt á vef breska blaðsins The Daily Telegraph segir að fjármálaráðuneytið verji enn ákvörðun sína. Hún hafi verið tekin til þess að dreifa áhættu.

Hins vegar er haft eftir Mark Dampier hjá fjármálafyrirtækinu Hargreaves Lansdown að þessi ákvörðun hljóti að vera einhver mestu mistök Gordons Brown og sennilega illa ígrunduð aðgerð í upphafi. Ef beitt hefði verið heilbrigðri skynsemi á þessum tíma og verðþróun á gulli skoðuð 20-25 ár þar á undan hefði komið í ljós að gullverð komst hæst í  850 dollara únsan á því tímabili, en var síðan komið svona langt niður.