Ævar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Kraftvéla ehf. hefur keypt öll hlutabréf í Kraftvélum ehf. af Eignarhaldsfélaginu Stofni hf., Páli Samúelssyni, Elínu S. Jóhannesdóttir og Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur. Einnig er um að ræða kaup á félaginu KFD A/S sem starfar í Danmörku, en KFD A/S er dótturfélag Kraftvélar ehf. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Kraftvélar ehf. er umboðsaðili fyrir ýmis vörumerki, og má þar helst nefna Komatsu vinnuvélar og Toyota lyftara. KFD A/S er umboðsaðili fyrir Komatsu í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi. Starfsmannfjöldi Kraftvéla ehf. og dótturfyrirtækis þess er um 110 manns og er velta fyrirtækjanna tæpir fimm milljarðar á ári.

Ævar er enginn nýgræðingur á þessu sviði enda búinn að starfa hjá Kraftvélum síðastliðin 15 ár. Hann segir að Kraftvélasalan á Kjalarnesi og Kraftvélaleigan séu inni í þessu dæmi líka, enda deildir í fyrirtækinu. Engin áform séu um að gera stórar breytingar á starfseminni við þessi eignaskipti.

Ævar segir að íslenska og danska fyrirtækið séu svipuð að stærð, en augljóslega séu stækkunarmöguleikarnir mestir í Danmörku. Heildarmarkaðurinn fyrir vinnuvélar þar í landi sé líklega nærri 3000 vélar á ári á meðan markaður er fyrir 250 til 300 vinnuvélar hér á landi er á ári. "Vaxtamöguleikarnir liggja nær allir þarna úti."

Þrátt fyrir að spenna hafi verið mikil á markaðnum hér undanfarin misseri, þá telur Ævar litlar líkur á að mikils samdráttar gæti á næstunni. Margvísleg verkefni séu í farvatninu á næstu misserum og árum sem kalla á áframhaldandi eftirspurn eftir vinnuvélum.