„Ég man að fyrir hrun var mikil æskudýrkun í bankageiranum. Maður passaði sig á því að nefna það aldrei hvað maður var gamall og að það að maður hafi byrjað í Iðnaðarbankanum vegna þess að þá höfðu margir aldrei heyrt um þann banka.“ Þetta sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og áhrifamesta konan í viðskiptalífinu að mati Viðskiptablaðsins. Hún bætti því við að eftir hrun hafi orðið mikil breyting á viðhorfum fólks og að reynsla fólks hafi skipt meira máli.

Birna var gestur í  Góðum degi á sjónvarpsstöðinni Miklagarði ásamt Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar og Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, stjórnarformanni Já. Þær voru allar á lista yfir áhrifamestu konur í viðskiptalífinu að mati Viðskiptablaðsins sem birtist í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Áhrifakonur.