*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 21. febrúar 2006 17:28

Var ósáttur við hvernig viðskiptasambandinu við Baug lauk

Jón Gerald vildi ekki svara spurningum um hótanir

Ritstjórn

Nokkur spenna ríkti í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar verjendur sakborninga hófu að spyrja Jón Gerald Sullenberger út í málið enda ljóst að hann var upphafsmaður málsins og lykilvitni þegar kemur að innflutningi bíla fyrir þau Jóhannes Jónsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Kristínu Jóhannesdóttur, en þau eru öll ákærð í málinu fyrir að hafa gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslum vegna fjögurra bíla sem þau keyptu og leggja fram tilhæfulausa vörureikninga sem Jón Gerald er sagður hafa útbúið að ósk þeirra. Trúverðugleiki hans skiptir því miklu um afdrif málsins og áttu menn von á því að saumað yrði rækilega að honum.

Einar Þór Sverrisson, verjandi Jóhannesar Jónssonar, spurði fyrst um hve hátt hlutfall viðskipta Nordica væri við Baug hf. Jón Gerald sagðist ekki geta sagt til um það nákvæmlega en sagði að það hefði verið mjög stórt. Einar Þór spurði hvort það hefðu verið breytilegt á milli ára og játti Jón Gerald því. Einar spurði Jón Gerald því næst hvernig hann hefði hugsað sér að ?leita réttar síns" ? og vitnaði þar til orða Jóns Geralds ? með því að opna málið. Jón Gerald hafa komið til landsins til að fá reikninga greidda og þess vegna leitað sér lögmanns. Einar Þór spurði þá að því hvort hann teldi sig hafa verið að leita réttar síns með því að leggja fram kæru hjá lögregluyfirvöldum. Jón Gerald sagðist hafa gert það sem einstaklingur sem hefði vitað að það væri eitthvað misjafnt í gangi hjá almenningshlutafélagi. Hann hefði viljað láta vita af því enda hefði hann haft upplýsingar þar um. Aðspurður sagðist hann hafa verið ósáttur við hvernig viðskiptasambandinu við stjórnendur Baugs hefði lokið.

Einar Þór spurði Jón Gerald því næst út í það hvort hann hefði haft í hótunum við Jón Ásgeir. Jón Gerald spurði á móti hvað það hefði með bílainnflutninginn að gera. Bað Einar Þór dómara um að minna vitnið á að hans væri að svara spurningum en ekki spyrja þær. Spurði Jón Gerald þá dómarann hvort hann þyrfti að svara þessum spurningum og sagði hann svo vera. Minnti saksóknari þá á að hér væri verið að spyrja út í meintar hótanir og ítrekaði dómsforsetinn Pétur Guðgeirsson þá, að samkvæmt 21. grein opinberra mála, þyrfti hann ekki að svara. Eftir nokkrar orðahnippingar sagðist dómsforseti líta svo á að Jón Gerald svaraði ekki á grundvelli 21. greinarinnar.

Einar Þór las því næst upp tölvupóst sem Jón Gerald á að hafa sent Jóni Ásgeiri þann 1. júlí 2002. Orðrétt segir þar: ?Ef einhver er lyginn og ómerkilegur þá ert það þú Jón Ásgeir. Þú virðir ekkert í kringum þig, ekki einu sinni konur fólksins sem er í kringum þig. Það eina sem þú kannt er að nota fólk." Einar Þór spurði Jón Gerald hvort þessi tölvupóstur væri frá honum kominn og staðfesti Jón Gerald að svo væri. Einar Þór spurði hvort það hefðu orðið vinslit þeirra í milli um svipað leyti og játaði Jón Gerald það. Frekari spurningum um hótanir í garð Jóns Ásgeirs baðst Jón Gerald undan að svara.

Einar Þór spurði hvort einhver hefði hvatt hann áfram til að leita réttar síns. Já, til dæmis konan mín, sagði Jón Gerald og bætti við að fjölskylda og vinir hefðu hvatt hann til þess. Einar Þór spurði þá sérstaklega um Jónínu Benediktsdóttur og sagði Jón Gerald að hún kynni að hafa gert það.

Einar Þór spurði þá um upphaf málsins og hvort hann hefði haft samband við ríkislögreglustjóra eða einhver annan. Jón Gerald sagði þá að Jón Steinar Gunnlaugsson hefði haft samband við ríkislögreglustjóra með því að hringja í hann á meðan Jón Gerald sat þar hjá. Jón Gerald sagðist hafa beðið Jón Steinar um að vera sinn lögmann og í framhaldi af því hefði hann ákveðið að leggja fram kærur.

Einar Þór spurði Jón Gerald að því hvort hann hefði haft milligöngu um að útvega skyldmenni starfsmanns ríkislögreglustjóra gistingu í Bandaríkjunum. Jón Gerald virtist koma af fjöllum við spurninguna og sagði svo ekki vera.

Einar Þór sagði því næst að Jón Gerald hefðis sagst hafa milligöngu um bílakaupin en hann vildi fá skýringu á því af hverju reikningarnir væru gefnir út í nafni Nordica Inc. Jón Gerald sagðist hafa séð um að kaupa bifreiðarnar og greiða fyrir þær. Hann hafi síðan útbúið reikning til þess að fá bílanna greidda og í einhverjum tilvikum hafi þóknun hans lagst þar við. Einar Þór spurði þá hvort þetta væri að selja bíla eða hafa milligöngu um það. Jón Gerald tók fram að bílarnir hefðu aldrei verið skráðir á Nordica.

Kristín Edwald, verjandi Kristínar Jóhannesdóttur, spurði Jón Gerald ítarlega út í þau skjöl sem hann hafði lagt fram í málinu og var greinilegt að hún taldi að hann væri ekki sjálfum sér samkvæmur.