Gera á skýrari greinarmun á viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi bankanna, að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hafa verið mjög ósáttur við það hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna á sínum tíma.

Það var Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem spurði Sigmund að því hvort hann teldi nauðsynlegt að skilja á milli starfseminnar eða teldi fullnægjandi að hafa Kínamúra þar á milli eins og átti að vera á árunum fyrir hrun.