Deidre Clark, sem áður starfaði sem lögmaður hjá bresku lögmannastofunni Allen & Overy, hefur nú kært stofuna og krefst 3,5 milljóna Sterlingspunda í skaðabætur.

Forsaga málsins er sú að Clark var rekinn frá lögmannastofunni eftir hún hóf að skrifa erótískar sögur á vefinn undir dálkaheitinu  Deidre Dare. Reyndar fylgir sögunni að Clark birti á sömu síðu myndir af sér í gegnsæjum nærfötum en myndirnar þóttu „vafasamar“ eins og það er orðað í frétt breska blaðsins Telegraph af málinu.

Allen & Overy er ein af virtari lögmannastofum Bretlands en hjá fyrirtækinu starfa um 5.500 manns víðsvegar um heim. Clark, sem er bandarísk, starfaði á skrifstofu fyrirtækisins í Moskvu. Árslaun hennar námu um 126 þúsund pundum en hún var látin fara frá stofunni í febrúar í fyrra. Sögur Clark fjalla, að sögn Telegraph, um unga viðskiptakonu sem lifir lífinu hratt en stjórnendur Allen & Overy telja hins vegar að Clark hafi skaðað orðspor stofunnar með skrifum sínum.

Þessu er Clark ósammála og hefur hún nú höfðað mál gegn Allen & Overy og krefst sem fyrr segir um 3,5 milljóna punda í bætur og ber fyrir sig að stofan hafi mismunað henni eftir kynferði og að henni hafi verið sagt upp með ósanngjörnum hætti. Talsmaður Allen & Overy segir að stofan muni taka til varna í málinu.

Fyrir áhugasama má lesa fréttina í Telegraph HÉR .