Forsætis- og fjármálaráðherrar Grikklands, þeir Alexis Tsipras og Yanis Varoufakis, hafa verið í framlínunni í viðræðum grískra stjórnvalda við alþjóðlega lánardrottna ríkisins, en á bak við þá eru nokkrir hugmyndafræðilegir harðlínumenn sem virðast einbeittir í að nýta það tækifæri sem gefist hefur með stjórnarsetunni til að ýta Grikklandi til vinstri. Einn þeirra er Panayotis Lafazanis.

Panayotis Lafazanis er orku- og umhverfisráðherra Grikklands og var meðlimur í stalínistaflokki Grikklands í þrjátíu ár áður en hann gekk í flokkinn sem síðar rann inn í Syriza. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann tók við ráðherraembætti hafði Lafazanis hætt við einkavæðingu nokkurra ríkisfyrirtækja, þar á meðal orkuvera, vatnsveita og rafmagnsdreifikerfis landsins, en einkavæðingin var hluti af samkomulaginu við lánardrottna Grikklands.

Hann hefur verið erlendum fjárfestum erfiður og hefur t.d. stöðvað um óákveðinn tíma eins milljarðs evra fjárfestingu kanadíska námafyrirtækisins Eldorado Gold í Grikklandi. Hins vegar tók hann mjög vel í tillögu rússneska gasrisans Gazprom um að Grikkland yrði hluti af nýju verkefni um lagningu gasleiðslu til Evrópu í gegnum Tyrkland. Vonaðist hann til að Grikkland gæti fengið allt að fimm milljarða evra fyrirframgreiðslu frá Rússlandi vegna verkefnisins. Lafazanis leiðir formlega andstöðu innan Syriza gegn Tsipras, en hún er alfarið á móti nýjum samningum við ESB og AGS, jafnvel þótt það leiði til brotthvarfs Grikklands úr evrusamstarfinu. Þessi andstöðuhópur er tilbúinn að kljúfa flokkinn og fella stjórnina komi til atkvæðagreiðslu í þinginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .