Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda hjá Logos lögmannsstofu, hefur verið nokkuð áberandi síðustu misseri sem verjandi Lárusar Welding, fv. forstjóra Glitnis. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er Lárus með stöðu grunaðs í tólf málum sem til rannsóknar eru hjá sérstökum saksóknara, þannig að væntanlega verður nóg að gera hjá þeim Óttari næstu misserin. Fyrir utan það að verja Lárus situr Óttar ekki auðum höndum. Hann situr í stjórn ALMC (áður Straumur-Burðarás) og nokkurra dótturfélaga.

Óttar er fyrst og fremst mikill fjölskyldumaður og að sögn reynir hann sitt besta til að samræma fjölskyldulíf og mikla vinnu — sem oft á tíðum reynist erfitt eins og gefur að skilja fyrir mann í þessu starfi. Þá þykir Óttar fyrirtaks söngvari og hefur gaman af því að syngja í góðra vina hópi. Á árum sínum í Verslunarskóla Íslands tók hann reglulega þátt í uppfærslu söngleikja og söng oftar en ekki einsöng.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.