Hækki laun almennt um 3,25%-4% í næstu kjarasamningum að viðbættri annarri launamyndun gæti launavísitalan á næsta ári hækkað um 5-6%. Það myndi leiða til vaxandi verðbólgu og stuðla að enn hærri vöxtum sem mun bitna illa á skuldsettum fyrirtækjum og heimilum, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA).

Fram kemur í tilkynningu frá SA í tengslum við kjaraviðræður sem nú standa yfir að markmið samtakanna í yfirstandandi samningalotu er að leggja grunn að stöðugu verðlagi og betri lífskjörum. Stöðugt verðlag er skilgreint með 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í því  felst að launabreytingar í heild á hverjum 12 mánuðum verða að vera innan marka sem samrýmast verðstöðugleika. SA bendir á að svo vill til að á þessu ári hækkuðu laun almennt um 3,25% og mánaðarlaunataxtar kjarasamninga um að lágmarki 11.000 kr. Mat samningsaðila á almenna vinnumarkaðnum þá var að krónutöluhækkunin myndi hækka launakostnað um 0,5% aukalega. Niðurstaðan varð sú að launavísitalan hækkaði um 6% milli október 2012 og 2013. Á sama tíma hækkaði verðlag um 3,7% á tólf mánaða tímabili.

Þá segir í tilkynningu SA að farið sé með rangt mál á vef ASÍ í dag . Þar er því haldið fram að hugmyndir aðildarfélaga ASÍ um 3,25% almenna hækkun launa en þó að lágmarki 11.000 kr. hækkun mánaðarlauna séu vel innan marka sem Seðlabankinn hafi nefnt að samrýmist verðbólgumarkmiðinu 2,5%. Þetta segir SA vera rangt og vísar til þess að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi sagt að ef laun eiga að vera í samræmi við verðbólgumarkmið bankans þá megi launakostnaður á framleidda einingu ekki vaxa meira heldur en nemur verðbólgumarkmiðinu. Þar af leiðandi  mega launin hækka sem nemur framleiðniaukningu.