Lögregluyfirvöld í Ástralíu hafa tekið upp á því að segja fólki að forðast að nota leiðsögukerfið Apple Maps á ferðum sínum um ótroðnað slóðir og aðrar vegleysur. Einhver tilvik munu einmitt hafa komið upp þar í landi þar sem ferðalangar hafi lent í hrakningum á ferðum sínum í óbyggðum.

Netmiðillinn Digital Trends segir að lögregluyfirvöld í Ástralíu hafi þurft að leita að sex einstaklingum í Murray-Sunset-þjóðgarðinum. Fólkið ráfaði um í ófæru í leit að borginni Mildura. Hnit í leiðsögukerfinu staðsetti fólkið hins vegar 70 kílómetrum frá þeim stað sem það var raunverulega statt á. Nú er sumar í Ástralíu og getur hitinn farið upp í rúmar 40 gráður.

Apple notaði áður leiðakerfi Google. Stjórnendur Apple hættu hins vegar að nota það þegar nýjasti síminn, iPhone 5, kom á markað fyrir stuttu en hann flaggaði nýju leiðsagnarkerfi frá Apple. Eins og margoft áður hefur komið fram er kerfið langt í frá gott og hefur komið fyrir að notendur hafi lent úti í móa.

Apple er búið að gera skurk í sínum málum, m.a. með því að segja upp þeim stjórnendum deildarinnar sem skópu kerfið.