Margir eru farnir að vara við hugsanlegum afleiðingum af árformum japanskra stjórnvalda um einkavæðingu póstþjónustu landsins og sérstaklega þeim áhrifum sem þau kunna að hafa á samkeppni annarra fjármálafyrirtækja. Póstþjónustan er með öðru sniði í Japan en annarstaðar en jafnframt því að sinna hefðbundinni dreifingarþjónustu er um að ræða einn stærsta sparisjóð heimsins.

Einkavæðing póstþjónustunnar, sem var eitt helsta stefnumál fyrrverandi forsætisráðherra, Junichiro Koizumi, mun gera það að verkum að nýr risi verður til á fjármálamarkaði. Fyrsti áfangi einkavæðingarferlis póstþjónustunnar mun hefjast fyrsta október næstkomandi en þá verður fyrirtækinu skipt upp í fjórar mismunandi rekstrareiningar - þar meðal innlánastarfsemi og tryggingastarfsemi. Innlána- og tryggingaeiningar hennar munu þá fá sjálfstæða tilveru. Talið er að einkavæðingaráformin muni annað hvort leiða til þess að samkeppni um það að veita Japönum ýmiskonar fjármálaþjónustu muni aukast ellegar að hún verði til þess að einkavæðingin muni leysa úr læðingi afl fjármálarisa af þeirri stærðargráðu að hann kæfi niður heilbrigða samkeppni.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.