Samtök iðnaðarins vilja vara við fyrirtækinu Euro Business Guide sem virðist vera með starfsemi bæði í Hollandi og á Spáni. Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir að fyrirtækið sendir nú út bréf, bæði í tölvupósti og með hefðbundnum pósti, þar sem fyrirtækjum er gefin kostur á að skrá sig í gagnagrunn þess.

Í póstinum sem fylgir kemur fram að „uppfærsla“ upplýsinganna sé viðkomandi að kostnaðarlausu en þegar betur er að gáð eru brögð í tafli. Í smáa letrinu stendur hins vegar að viðkomandi fyrirtæki sé að skuldbinda sig til þriggja ára og skráningargjald hvers árs sé 990 evrur. Full ástæða er til að vara íslensk fyrirtæki við aðilum sem þessum. SI og SA vöruðu í apríl 2005 við samskonar prettum. Þá var varað við sænska fyrirtækinu Nordisk Industri og fyrirtækjunum Nordisk Affärer, Euro Trade Forum og European City Guide. Ekki er útilokað að sömu aðilar standi jafnvel á bak við öll fyrirtækin, segir í tilkynningunni.