Samtök breskra fjárfesta (ABI) hafa varað fyrirtæki við því að gera of stóra starfslokasamninga við stjórnendur fyrirtækja og segja að fjárfestar líti það alvarlegum augum.

Um það bil fimmtungur breskra fjárfesta er í ABI en bréfið var sent til 350 stærstu fyrirtækja Bretlands þar sem hvatt er til þess að samningar um eftirlaun forstjóra séu endurskoðaðir. Áhyggjur ABI snúast um starfslokasamninga sem tryggja fráfarandi stjórnendum gríðarlega há eftirlaun sem ekki byggist á frammistöðu þeirra, en stjórnendur fyrirtækja gætu þannig verið verðlaunaðir fyrir lélega frammistöðu fyrirtækja sinna.

Forstjóri fjárfestingadeildar ABI, Peter Montagnon, segir að eftirlaun séu nú ákaflega viðkvæmt málefni í Bretlandi þar sem verkamenn hafi orðið fyrir skerðingu á eftirlaunum sínum að undanförnu. "Það þarf að endurskipuleggja þessi mál þannig að verðlaunað sé fyrir velgengni, framtakssemi og arðsköpun, en ekki mistök."

Starfslok fjögurra forstjóra orkufyrirtækisins Scottish Power hafa valdið fjaðrafoki meðal breskra fjárfesta, en eftirlaun fyrrum framkvæmdarstjóra fyrirtækisins, Ian Russel, voru tvöfölduð við starfslok hans, úr 443 milljónum króna í 886 milljónir króna. Samkvæmt samningnum getur Russel nú sest í helgan stein á sömu eftirlaunum og ef hann hefði unnið til eftirlaunaaldurs. Scottish Power sagði að þeim hafi verið skylt að uppfylla gerða samninga, en að fyrirtækið væri nú að endurskoða eftirlaunasamninga við aðra stjórnendur fyrirtækisins.

ABI telur mögulegt að önnur fyrirtæki hafi gert svipaða samninga og Scottish Power sem hluthafar viti ekki um. Montagon segir að fyrirtæki geti ekki lengur unnið traust hluthafa með sömu málsvörn og Scottish Power, "þetta er ekki bara spurning um að gera betri samninga í framtíðinni, heldur einnig að uppfæra úrelta samninga sem eru enn í gildi," sagði Montagnon.