Efnahagsbatinn í Bandaríkjunum er á réttu róli, hagvöxtur verður hóflegur á árinu og draga mun úr atvinnuleysi þótt erfiðlega hafi gengið að vinna bug á langtímaatvinnuleysi, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

OECD bendir á það í nýrri skýrslu um stöðu efnahagsmála vestanhafs að á sama tíma og dregið hafi úr atvinnuleysi þá hafi bilið á milli tekjuhópa breikkað. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum snerti 10% markið árið 2009 og er nú komið niður í 8,2%. Af þeim rúmlega 10 milljónum manna sem eru án atvinnu í Bandaríkjunum hafa 5,3 milljónir þeirra, um 40% mælt göturnar í 27 vikur eða meira. Í skýrslu OECD er sérstaklega varað við þessari þróun og mælt með námskeiðahaldi og öðrum aðgerðum til að draga úr því.

Gert er ráð fyrir því að enn muni draga úr atvinnuleysi og að það verði komið niður í 7,6% í lok næsta árs. Þetta eru bjartari horfur í atvinnumálum en bandaríski seðlabankinn gerir ráð fyrir. Í spá hans er áætlað að atvinnuleysi muni standa í 7,6 til 8% í lok ársins.

Í skýrslu OECD er tekið fram að vöxtur í verktakageiranum séu ágætar vísbendingar um það hvert stefni í efnahagslífinu eftir kreppur. Tekið er fram að geirinn hafi tekið hægar við sér en vænst hafi verið og því settur fyrirvari við batann.

Stofnunin bendir sömuleiðis á að ríkisstjórn Baracks Obama hafi talað fyrir því að þeir sem hafi eina milljón eða meira í árstekjur greiði 30% tekjuskatt og afnemi skattaafslætti þeirra. OECD styður þessi áform og bendir á að þeir efnameiri greiði meira til hins opinbera en áður til að koma hjólum efnahagslífsins í gang. Þessi hugmynd hefur verið kennd við auðkýfinginn Warren Buffett, sem talað hefur fyrir málinu. Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian er rifjað upp að Buffett hafi sagt skattaafsláttinn sem hann njóti gera það að verkum að hann greiðir hlutfallslega lægri skatta en ritari sinn.