Undanfarna daga hefur borið á tilraunum til fjársvika með svokölluðum fyrirmælafölsunum að því er Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi Landsbankans segir. Vill Landsbankinn því af gefnu tilefni vara við slíkum tilraunum til fjársvika en bankinn segir að nokkuð hafi borið á slíkum tilraunum undanfarna daga.

Þau fara þannig fram að svikahrappar senda fölsk fyrirmæli til starfsfólks fyrirtækja um að millifæra fé á erlenda bankareikninga að því er segir á vef bankans..

Svikatilraunirnar sem Landsbankinn hefur fengið fregnir af lýsa sér þannig að tölvupóstur sem virðist við fyrstu sýn vera frá framkvæmdastjóra fyrirtækis, en er í raun frá fjársvikurum, er sendur á fjármálastjóra eða annan sem sér um fjármál og greiðslur hjá fyrirtækjum.

Í póstinum er spurt hvort tiltekin fjárhæð sé til reiðu á bankareikningi og í kjölfarið er óskað eftir að hún millifærð á erlendan reikning.

Svik af þessum toga eru nefnd fyrirmælafalsanir og hafa færst töluvert í aukanna á undanförnum árum. Ef grunur leikur á að fyrirtæki hafi orðið fyrir svona árás er mikilvægt að fyrirtæki hafi samband við lögregluna ([email protected]) og sinn viðskiptabanka.

Bankinn setur af stað ferli í samstarfi við yfirvöld og aðra banka til að endurheimta féð. Því fyrr sem tilkynning berst, þeim mun líklegri eru endurheimtur. Ennfremur er mikilvægt að kæra öll mál til lögreglunnar. Sjaldnast er ráðist á eitt fyrirtæki í einu og það gerir tilkynningar til lögreglu enn brýnni.

Nánar má lesa um hvernig hægt sé að þekkja og verjast fyrirmælafölsunum sem og ýmis önnur netöryggismál á vef bankans.