*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 24. ágúst 2020 12:27

Vara við „fyrstur kemur, fyrstur fær“

SA telur ekki gott að hlutdeildarlán verði fyrstur kemur fyrstur fær. VR telur að hækka verði tekjuþak í frumvarpinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Þingsetning verður seinna á ferðinni þetta árið vegna ástandsins í efnahagslífinu.
Haraldur Guðjónsson

Lögfesting „fyrstur kemur fyrstur fær“ lánveitinga er tæplega til þess fallin að aðstoða ungt eða tekjulágt fólk við að eignast eigin húsnæði. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins (SA) við drög að breytingatillögum á frumvarpi um hlutdeildarlán.

Frumvarpið var lagt fram í sumar en var ekki afgreitt áður en þingið fór í sumarfrí. Þingheimur kemur saman á ný næstkomandi fimmtudag og eru hlutdeildarlánin meðal annars á dagskránni. Þar á er á ferðinni lögfesting á kúluláni til fasteignakaupa. Höfuðstóll þess er að hlutfall af verði fasteignar og greiðist upp í einu lagi við sölu hennar.

Sjá einnig: Ekki einhugur um hlutdeildarlán

Áætlað er að árlegir fjórir milljarðar króna renni í úrræðið næstu tíu árin en ekki er hins vegar kveðið á um með skýrum hætti hvernig úthlutunarreglurnar verða. Alls er stefnt að því að veita um 400 slík lán á ári og sem stendur virðist fyrirkomulagið vera „fyrstur kemur fyrstur fær“, það er þeir sem sækja um í byrjun árs geta tæmt pottinn fyrir þá sem eru í fasteignahugleiðingum síðar á árinu. Í breytingatillögunum er þó reglugerðarheimild til handa ráðherra komi það upp úr dúrnum að ásókn í lánin verði mikil.

„Fyrstur kemur, fyrstur fær“ er slæmur kaffibolli

„Með hlutdeildarlánaúrræðinu er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] gert að meta hvaða húsnæði og hvaða umsækjendur geta fengið lán innan ákveðinna fjárheimilda. Með þessu móti er ekki verið að tryggja þeim sem þurfa á úrræðinu að halda lán og húsnæði. Þvert á móti er eingöngu þeim sem fyrst sækja um úrræðið tryggður sá möguleiki, öðrum ekki, þrátt fyrir að uppfylla til þess öll skilyrði,“ segir í umsögn SA.

Í umsögn VR er drögum að breytingum fagnað að mestu leyti en þó sett út á þau tekjumörk sem liggja til grundvallar. Samkvæmt frumvarpinu má einsaklingur ekki vera með hærri tekjur en 7.560 þúsund krónur á ársgrundvelli í laun, það er er um 630 þúsund á mánuði. Sambúðarfólk má að hámarki hafa 10,5 milljónir á ári eða um 440 þúsund krónur að meðaltali á mánuði hvort.

„Þessi tekjumörk eru of lág og þarf að fella út eða hækka umtalsvert. Sé litið til félagsmanna VR á áldrinum 25-30 ára þýðir ákvæðið að yfir 70% þeirra geta ekki nýtt sér þetta úrræði til að eignast eigið húsnæði,“ segir í umsögn VR.

Þá segir félagið að mikilvægt sé að lánin séu veitt á öðrum veðrétti en ekki síðasta lausa veðrétti. Slíkt lagaboð myndi veita „aðhald gagnvart fjármálastofnunum, sem ella hefðu svigrúm til að verðleggja lán sín með mismunandi hætti og þannig dregið til sín hluta ábatans sem löggjafinn ætlar að veita fjölskyldum en ekki fjármálafyrirtækjum“.

Rétt er að geta þess að í sumar varaði Seðlabanki Íslands við því að umfang úrræðisins yrði aukið. Slíkt gæti haft það í för með sér að bankinn sæi sig knúinn til að grípa til mótvægisaðgerða með því að auka aðhald á sviði peningamála.

Sambúðarfólk, sambýlingar eða hvað?

Í umsögn Arion banka er síðan vakin athygli á því að í breytingatillögunum komi fram tekjumörk fyrir sambúðarfólk. Það hugtak hafi hins vegar aldrei verið skilgreint í íslenskri löggjöf.

„Án haldbærrar skilgreiningar liggur ekki fyrir hvort einungis sé átt við fólk í skráðri sambúð eða „hverja þá fullorðnu einstaklinga sem velja sér að deila heimili hverjar svo sem ástæður þess eru. Hér getur t.d. verið um að ræða foreldri með uppkomnu barni sínu, aðra ættingja, vini eða þá sem búa saman í nánu lífssambandi sem líkja má við hjúskap eða staðfesta samvist en kjósa þó ekki að velja það form“ sbr. skilgreiningu í skýrslu dómsmálaráðherra [frá 2001],“ segir í umsögn bankans.

Í umsögninni er bent á að sé skilgreining skýrslunnar lögð til grundvallar megi skilja fyrirhugaða reglu á þann veg að hún geti til dæmis átt við þrjá vini, suma jafnvel með börn, „sem kjósa að búa saman og deila engri framfærslu nema rekstrarkostnaði veðsins. Því er eðlilegt að varpa fram þeirri spurningu hvort það sé ætlunin?“ segir í umsögn bankans.

Sem fyrr segir kemur þingið saman til snarpa funda næstkomandi fimmtudag. Stefnt er að afgreiða frumvarpið sem lög á þeim fundum en samkvæmt heimildum blaðsins er ekki einhugur innan stjórnarliðsins um ágæti frumvarpsins.

Stikkorð: Hlutdeildarlán