*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 19. september 2016 16:04

Vara við gjaldeyrisbröskurum

Fjármálaeftirlitið varar við óhefðbundnum aðilum sem auglýsa gjaldeyrisviðskipti, 11 dögum eftir frétt Viðskiptablaðsins.

Ritstjórn

Fjármálaeftirlitið segir tilefni til að vara almenning og fjárfesta við þeirri áhættu sem falist getur í viðskiptum með fjármálagerninga sem tengdir eru gjaldmiðlum.

Fjallað um GEM Iceland fyrir 11 dögum

Segir eftirlitið að á undanförnu hafi borið á óhefðbundinni markaðssetningu á slíkum viðskiptum sem talist getur villandi. 

Viðskiptablaðið fjallaði þann 8. september síðastliðinn um auglýsingu hóps fólks sem gengur undir nafninu GEM Iceland sem virtist lofa snekkjulífi og miklum auð fyrir þá sem tækju þátt í ævintýrinu með þeim.

Vísa í lista yfir eftirlitsskylda aðila

Fjármálaeftirlitið segir að þar sem erlend gjaldeyrisviðskipti séu ekki starfsleyfisskyld geti fyrirtæki boðið upp á þau án leyfis frá stofnuninni, en í fréttatilkynningu um málið er bent á lista yfir eftirlitsskylda aðila á Íslandi sem þeir sem vilji geti nýtt sér. 

Auk þess bendir stofnunin á skrár yfir eftirlitsaðila á Evrópska efnahagssvæðinu, þess utan vísar hún til viðvörunar ESMA, evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar um varkárni við notkun rafræns vettvangs í viðskiptum með gjaldeyristengda fjármálagerninga.

Hvetja til sambands við Seðlabankann

Jafnframt er vísað í að hægt sé að hringja í gjaldeyriseftirlit Seðlabankans eða senda fyrirspurnir á veffang hans, gjaldeyrismal@sedlabanki.is til að fá frekari upplýsingar um heimildir og takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum vegna við viðskipta með fjármálagerninga sem tengdir eru erlendum gjaldmiðlum.

Í fréttatilkynningunni segir enn fremur:

„Við ákvörðun um fjárfestingu er gott að hafa eftirfarandi til hliðsjónar:

  • Fjárfesta ekki með fé nema að hafa efni á  að tapa því
  • Gera sér grein fyrir því hvernig áhætta fylgir hverri fjárfestingu
  • Kanna hvort aðili sem skipta á við sé með starfsleyfi hér á landi
  • Kanna lagaheimildir til erlendra fjárfestinga“