Markaðsaðilar búast við óbreyttum vöxtum til loka árs en að þeir hækki um 25 punkta á fyrsta ársfjórðungi á næsta ári og aftur um 25 punkta á þeim þriðja. Gangi það eftir verða stýrivextir komnir í 6,5% undir lok árs 2014. Greiningardeild Arion banka vitnar til markaðskönnunar Seðlabankans í í Markaðspunktum sínum um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt var í dag. Þar segir að gangi væntingar markaðsaðila eftir megi búast við því að virkir raunstýrivextir lækki umtalsvert á næstu tveimur ársfjórðungum og verði undir 2% fram á fyrsta fjórðung næsta árs.

Greiningardeild Arion banka segir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í morgun ekki hafa komið á óvart. Á hinn bóginn hafi tóninn verið mildari en búist var við, ekki síst þar sem verðbólguhorfur hafi versna og verðbólguvæntingar enn háar eða farið hækkandi. Þá bendir deildin á að talsverð óvissa ríki um niðurstöður kjarasamninga sem verði lausir í haust og áhrif þeirra á verðbólguhorfur.

Vara við hættunni

„Miðað við hvernig haustið fer af stað og hvernig umræðan hefur verið að undanförnu þá er sú hætta fyrir hendi að við séum að lenda í sama vítahring og verið hefur undanfarin ár; við fáum hér óhóflegar launahækkanir sem eru ekki í samræmi við framleiðnivöxtinn í hagkerfinu. Vegna þessa þá kemur okkur á óvart að tónninn í yfirlýsingunni hafi ekki verið harðari,“ segir greiningardeild Arion banka.