Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir hættulega mikið af fjármagni streyma til Asíu, það skýrist af lágu vaxtastigi og hækkandi eignaverði. Af þeim sökum verði að koma í veg fyrir að hagkerfi Asíuríkja ofhitni.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri ársskýrslu AGS um Asíu og breska dagblaðið Financial Times fjallar um í dag. Þar er bent á að í mörgum þróaðri löndum Asíu hafi taumhald peningastefnu verið með slakasta móti síðustu árin og það skilað sér í hækkun á eignaverði. Af einstökum ríkjum má nefna að fasteignaverð í Hong Kong er rúmlega tvöfalt hærra nú en fyrir fjórum árum. Þá er verð hlutabréfa í SA-Asíu í hæstu hæðum..

Þar segir m.a. búist sé við því að meðalhagvöxtur í Asíu verði um 5,75% á þessu ári. Á sama tíma verði ráðamenn í ríkjunum að vera reiðubúnir til að grípa í taumana og stýra hagkerfum ríkjanna til betri vegar greini þeir hættumerki sem geti valdið óróleika í efnahagslífi ríkjanna.