Skuldasöfnun nýmarkaðsríkja síðustu ára er sú mesta og hraðasta í nútímasögu samkvæmt Alþjóðabankanum sem hefur áhyggjur af stöðunni. Á marga kanta séu nýmarkaðsríkin í verri stöðu en í fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug. FT greinir frá.

Hinir ofurlágu vextir síðustu ára hafa þýtt að heildarskuldir nýmarkaðsríkja hafa hækkað um 54 prósentustig frá árinu 2010 í 170% af landsframleiðslu. Í Kína hefur skuldahlutfallið hækkað um 72 prósentustig frá árinu 2010 og stendur í 255% af landsframleiðslu.

Alþjóðabankinn hefur sér í lagi áhyggjur af því hvort nýmarkaðsríkin ráði að vextir taka að hækka á ný samkvæmt nýrri skýrslu bankans.

Fjárlagahalli er í um 75% nýmarkaðsríkjanna, skuldir fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað verulega og viðskiptahalli ríkjanna er fjórfalt hærri en árið 2007.

Bregðast þurfi við með því að draga úr skuldum í erlendum gjaldmiðlum, fyrr en síðar ef ekki á illa að fara. Um helmingur 521 tilfella þar sem skuldir þjóða hafa vaxið hratt frá 1970 hafa endað í kreppu samkvæmt skýrslunni.

Hættumerkin séu á marga mælikvarða fleiri  en í aðdraganda skuldakreppu Suður-Ameríkuríkja í upphafi 9. áratugarins, fjármálakreppunni í Suðaustur-Asíu undir lok 10. áratugarins og fjármálakreppunni 2008. Þá hafi skuldirnar takmarkast við ákveðin svæði og að mestu takmarkast við skuldir hins opinbera.