*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 18. janúar 2021 14:25

Vara við sölu bankans til lífeyrissjóða

Samkeppniseftirlitið varar eindregið við því að lífeyrissjóðir eignist stóran hlut í Íslandsbanka vegna áhrifa á samkeppni.

Ritstjórn
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins er ásamt Ólafi Frey Þorsteinssyni sérfræðingi ómyrkur í máli í umsögn sinni til fjárlaganefndar Alþingis um fyrirhugaða sölu Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið (SKE) lýsir yfir áhyggjum af því að enga umfjöllun um samkeppnisáhrif sölu Íslandsbanka, sem nú stendur fyrir dyrum, sé að finna í skýrslu fjármálaráðherra um málið. Eftirlitið telur að stefna skuli að sem fjölbreyttustu eignarhaldi. Þetta kemur fram í umsögn SKE til fjárlaganefndar Alþingis um söluna.

Mælt er gegn því að stórir kaupendur eigi hlut í samkeppnisaðilum bankans, né að þeir séu keppanautar hans sjálfir eða umsvifamiklir viðskiptavinir. Er þar átt sérstaklega við lífeyrissjóðina, sem uppfylla öll fyrrgreind skilyrði, en auk þeirra eru skuldsett eignarhaldsfélög í eigu einkafjárfesta sögð varhugaverðir kaupendur, með vísun í bankahrunið 2008.

Einsýnt er sagt að sjóðirnir verði meðal stærstu kaupenda miðað við fyrirliggjandi forsendur. Reynsla nýlegs hlutafjárútboðs Icelandair sýni að tilvonandi sala fjórðungshlutar verði erfið án aðkomu þeirra, hvað þá sala bankans í heild, án aðkomu erlendra fjárfesta, sem ekki sé gert ráð fyrir í áætlunum.

Stærstu þrír eiga fjórðung í Arion
Bent er á að samanlagður eignarhlutur þeirra lífeyrissjóða sem eiga yfir 1% hlut í Arion banka sé 35%, og þar af eigi þrír stærstu sjóðirnir 24%. Ennfremur er bent á að sjóðirnir séu ekki aðeins meðal helstu viðskiptavina bankanna sjálfir, heldur séu þeir einnig eigendur annarra stórra viðskiptavina.

Loks eigi sjóðirnir að einhverju leyti í samkeppni við bankana á lánamarkaði. Auk þess að keppa með beinum hætti við þá á íbúðalánamarkaði veiti þeir bönkunum aðhald með fjárfestingum í sjóðum sem kaupi fyrirtækjaskuldabréf.

Sterk fákeppniseinkenni á fjármálamarkaði
Eftirlitið ítrekar því mikilvægi mats á samkeppnislegum áhrifum sölunnar – sér í lagi með tilliti til lífeyrissjóðanna – enda stuðli virk samkeppni að lægra verði og betri gæðum þjónustu, hagkvæmni í rekstri og fjármálastöðugleika.

Íslenskur fjármálamarkaður er sagður bera sterk fákeppniseinkenni, með fáa aðila á einangruðum markaði, sem geti myndað jarðveg fyrir þegjandi samráð. Þetta ýti enn frekar undir mikilvægi þess að hafa samkeppnissjónarmið í huga við söluna.