Nærri þriðjungssamdráttur var í sölu á saltfiskafurðum á tímabilinu 2011 til 2018 og enn hefur dregið úr sölu, að sögn Mikaels Símonarssonar, sölu- og markaðsstjóra hjá Golden Seafood Company í Hafnarfirði, sem jafnframt á sæti í stjórn Félags íslenskra saltfiskframleiðenda.

Ein af ástæðunum fyrir þessum mikla samdrætti í sölu á hefðbundnum saltfiski séu breytingar á neysluvenjum á Spáni og víðar þar sem markaðurinn er að færast meira út í léttsaltaðan fisk á kostnað hefðbundinnar verkunar.

„Margir hafa fært sig úr saltfiski yfir í léttsaltaðan fisk og ferskar afurðir. En svo hefur sjófrysting líka aukist mikið. Þó má segja að saltfiskvinnsla hafi aukist eitthvað eftir að þessi staða kom upp með ferska fiskinn í kjölfar Covid 19 faraldursins en þó hafa menn reynt að halda að sér höndum í þeim efnum. Menn óttast of mikið framboð nú þegar páskarnir eru yfirstaðnir þegar neyslan er jafnan mest. Saltfiskur er líka fremur dýr vara og veitingahúsamarkaðurinn er lokaður. Smásalan kaupir að jafnaði ekki mikið af saltfiski. Það eru birgðir núna út um allt, að því er ég best veit, þess vegna er áríðandi að menn haldi að sér höndum í framleiðslunni,“ segir Mikael.

Hann segir marga fiskverkendur hafa aukið frystinguna á kostnað söltunar. Sú vara haldi sér betur í birgðum en saltfiskurinn sem rýrnar um allt að 10% við 5-6 mánaða geymslu.

Mikael segir að verðlækkanir séu á öllum afurðum út um allan heim.

Verðlækkanir jafnt erlendis sem innanlands

„Við hjá Golden Seafood höfum verið að selja ferskan fisk til Evrópu og þar erum við að glíma við gríðarlegar verðlækkanir, sérstaklega á þorskinum. Verðin nánast hrundu fyrir tveimur vikum því framboðið er mikið og eftirspurnin mjög takmörkuð.“

Hann segir að verðlækkun á ferskum fiski inn á Evrópumarkað sé allt að 30% en á móti komi að viðlíka verðlækkanir hafi orðið á fiskmörkuðum á Íslandi. Verð á bolfiski hafi hrunið á Íslandi og nú sé kílóverð á óslægðum þorski um 200 krónur en hafði verið nálægt 360 krónum.  Verðlækkun innanlands vegi því upp verðlækkun erlendis fyrir vinnsluna. Nú snúist málið um það að ná að selja afurðirnar ellegar safna upp birgðum.

„Við hjá Golden Seafood erum að selja mest inn á Asíu núna og eitthvað minna inn á Evrópu. Fyrir Covid 19 var salan til Asíu 30-40% af heildinni og 60-70% fór til Evrópu. Núna hefur þetta alveg snúist við og salan til Asíu er um 70% af allri framleiðslunni. Eftirspurnin frá Asíu er kannski ekki mikil en þetta eru svo stórir framleiðendur. Þarna er einn framleiðandi kannski með 3.000 manns í vinnu. Þeir kaupa af okkur frosinn fisk, aðallega þorsk. Við erum ekki að fá hátt verð fyrir fiskinn en lágt verð á mörkuðum hérna heima hjálpar okkur. Framlegðin er þó mun meiri en ef við værum að selja þennan fisk í Evrópu.“

Mikael á ekki von á því að breytingar verði á mörkuðum út þetta sumar. Staðan verði sennilega óbreytt fram á haust hvað varðar opnun veitingastaða og mötuneyta þar sem um 65% allra ferskra afurða hefur farið. Hugsanlega verði eitthvað farið að opnast á Spáni, Ítalíu og Frakklandi með haustinu en talsverðar líkur að markaðir verði ennþá mjög takmarkaðir í Bretlandi.