Slit á EA fjárfestingarfélagi hf., sem áður hét MP banki, kynnu að hafa neikvæð áhrif á verðmæti eigna félagsins, að því er segir í fyrirvara við ársreikning félagsins fyrir síðasta ár. Samkvæmt túlkun FME ber að slíta banka við skil á starfsleyfi. EA fjárfestingarfélag tilkynnti í fyrradag að allri leyfisskyldri starfsemi væri nú hætt, svo sem bankastarfsemi. Fjármálaeftirlitinu (FME) var því tilkynnt að starfsleyfi félagsins hafi verið skilað.

Einar S. Hálfdánarson, stjórnarformaður félagsins, segir að eftir ítarlega lögfræðilega skoðun teljist enginn vafi á að skil á starfsleyfi leiði ekki til þeirra afleiðinga sem ræddar eru í ársreikningnum. Hann segir áhrif á eignasafnið engin og starfsemi félagsins óbreytta.

EA fjárfestingarfélag er í fjórðungseigu Margeirs Péturssonar og félaga undir hans stjórn. Sigurður Gísli Pálmason á 15,5% hlutafjár, Jón Pálmason einnig og Byr hf. um 12,2% hlut samkvæmt ársreikningi 2010. Alls voru hluthafar 56 talsins í lok ársins.

Ársreikningurinn var samþykktur af stjórn á aðalfundi sem haldinn var 28. apríl sl. Honum var skilað til ársreikningaskrár í síðustu viku. Þótt ársreikningurinn sé fyrir síðasta ár er farið yfir söluna á MP banka til fjárfestahóps sem leiddur var af Skúla Mogensen. Viðskiptin voru samþykkt í byrjun apríl 2011. Við söluna var viðskiptabankastarfsemi EA fjárfestinga seld úr félaginu. Eftir viðskiptin er tilgangur EA fyrst og fremst eignarhald á útlánum og eignarhlutum tengdum Úkraínu.

Möguleg inngrip úkraínskra stjórnvalda

"Eftir viðskiptin hefur lausafjárstaða bankans veikst verulega og kann bankinn að lenda í greiðsluerfiðleikum ef neikvæð niðurstaða hlýst af dómsmálum sem rekin eru gegn honum," segir í fyrirvara endurskoðanda. Ennfremur segir að ef starfsleyfi verði skilað til FME kynni það að hafa neikvæð áhrif á verðmæti eigna bankans. Vegna þessa ríki óvissa um rekstrarhæfi hans.

Í ársreikningnum sjálfum segir að ótímabært slitaferli í kjölfar sölunnar á viðskiptabankastarfsemi geti haft neikvæð áhrif á verðmæti eigna í Úkraínu, vegna mögulegra inngripa þarlendra yfirvalda. Gert sé ráð fyrir að bankinn muni halda takmörkuðu starfsleyfi tímabundið. Á meðan verði unnið að því að tryggja að slit hafi ekki neikvæð áhrif.

Einar tók skýrt fram í samtali við Viðskiptablaðið að verulegt eigið fé er innan félagsins. Samkvæmt ársreikningi síðasta árs nemur eigið fé um 1,6 milljörðum króna. Það ár varð tap á rekstri upp á nærri 3,6 milljarða. Eiginfjárhlutfall bankans samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var 5,1%, eða 3,0% af heildareignum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun.

Meðal annars efnis er:

  • Leigufélög í þrot
  • Samanburður á uppgjöri bankanna
  • Botnlaus taprekstur Húsasmiðjunnar
  • Stjórnendur bera 10% ábyrgð
  • Þörf á endurskoðun á upptöku evru
  • Stærstu fyrirtækin gera upp í evrum
  • Áður óþekktir dýrgripir