Nafn Jóns Geralds Sullenberger varð þekkt hér á landi í kjölfar Baugsmálsins svokallaða, en rekja má upphaf málsins til kæru sem Jón Gerald lagði fram gegn Baugi árið 2002 er hann taldi sig eiga inni ógreidda reikninga hjá félaginu.

Í viðtali við Viðskiptablaðið var Jón Gerald m.a. spurður um það hvernig hann sæi sjálfan sig koma út úr þessu flókna og erfiða máli.

„Ég er búinn að leggja þetta mál að baki en þetta var vissulega mikill skóli,“ segir Jón Gerald.

„Mér finnst þó daprast við þetta mál að ég kom hingað heim til að láta stjórnvöld vita hvernig þetta félag, Baugur, var rekið. Það vildu fáir hlusta. Árið 2006 hitti ég mikið af fólki, þ.á.m. bæði Steingrím J. Sigfússon og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og sýndi þeim gögn og sagði við þau að þessa menn þyrfti að stoppa. Ef þeir yrðu ekki stoppaðir myndu þeir setja hér allt á hausinn. Það var ekki hlustað og maður fékk það á tilfinninguna að hagsmunirnir væru annars staðar. Það virtist ekki vera áhugi á því að taka á þessu máli. Það höfðu allir meiri áhuga á því að taka þátt í veislunni.“

En eins og málið var spilað upp þá leit út fyrir að þú værir einn í baráttu við stóran risa, hvernig var sú barátta fyrir þig persónulega?

„Ég hafði í raun ekki áhyggjur af því sökum þess að ég vissi betur. Þeir voru búnir að höfða nokkur mál gegn mér í Bandaríkjunum en töpuðu þeim öllum og voru alltaf sendir með skottið á milli lappanna til baka. Þannig að ég var ekkert ókunnur átökum við þá,“ segir Jón Gerald.

„Það sem hins vegar olli vonbrigðum var að íslenskir dómstólar stóðu ekki í lappirnar gegn þeim. Það er mjög sorglegt. Ég gleymi því aldrei þegar málið var tekið fyrir í Hæstarétti, þegar foreldrar Gests Jónssonar [lögmanns Jóns Ásgeirs Jóhannessonar] mættu í réttarsal til að knúsa hann og kyssa fyrir framan alla fyrir réttarhöldin. Þetta var eitt stórt leikrit og minnti á Bravos bíómynd. Manni fannst eins og þarna væri verið að senda einhver skilaboð út og jafnvel til dómaranna. Þessir lögmenn sem unnu hörðum höndum fyrir þessa aðila höfðu þó af þessu gríðarlegar tekjur og menn mættu spyrja sig hvaðan allir þessir peningar komu. Sá kostnaður féll nú að miklu leyti á viðskiptavini verslana þeirra.“

En kemur þú laskaður út úr þessu?

„Nei, þetta var öllu heldur gott veganesti og gríðarlegur skóli fyrir mig,“ segir Jón Gerald.

„Það var einu sinni góður maður sem sagði við mig að það væru tveir aðilar sem þú ættir aldrei ljúga að. Annars vegar læknirinn þinn, því þá gæti hann ekki læknað þig, og hins vegar lögmaðurinn þinn, því þá gæti hann ekki varið þig. Það gæti verið ástæðan fyrir því að Baugsmenn töpuðu öllum sínum málum gagnvart mér úti, þó þeir hafi haft her lögmanna, tugi ef ekki hundruð milljóna til að mæta kostnaði og ekki má gleyma einkaspæjaranum. Maður á að koma fram af heiðarleika og það er það sem ég gerði. Ég lagði hlutina á borðið og vissulega þurfti ég að gera upp ákveðinn hlut. Ég gerði nokkuð sem ég hefði ekki átt að gera þegar ég átti viðskipti við Baugsmenn og ég þurfti að taka afleiðingunum af því.“

Eftir að hafa lifað og starfað við heildsölu í Bandaríkjunum í rúmlega 20 ár setti hann á fót verslun á Íslandi árið 2009. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Jón Gerald yfir hina ýmsu þætti sem tengjast rekstrinum, samskiptum við birgja, flókna samkeppnisstöðu, íþyngjandi reglur ESB og íslenskra stjórnvalda. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu blaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.