Ekki verður kjörinn nýr bankaráðsmaður Seðlabankans í stað Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, sem sagði í gær af sér setu í bankaráðinu. Varamaður hennar, Guðmundur Örn Jónsson, mun taka sæti hennar sem aðalmaður.

Alþingi mun síðan kjósa nýtt bankaráð þegar breytingar á lögum um Seðlabankann verða samþykkt, að sögn Álfheiðar Ingadóttur, formanns viðskiptanefndar Alþingis.

Valgerður segir í afsagnarbréfi sínu til forseta Alþingis að sér væri um megn  „að sitja fundi með bankastjórn sem situr í óþökk ekki bara fólksins í landinu heldur einnig þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn landsins," eins og segir í bréfinu.

Bankaráðsfundur verður haldinn í dag en auk bankaráðsmanna situr bankastjórn fundi ráðsins.

Valgerður var kjörin af Alþingi í bankaráðið hinn 4. nóvember 2008 eftir að forveri hennar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu, hafði sagt af sér.

Valgerður segir í samtali við Viðskiptablaðið að hún hafi ekki verið himinsæl með að taka það embætti að sér á sínum tíma en hafi þó fallist á það í ljósi þess að fylla þyrfti sæti Sigríðar.