Breska fjármálaráðuneytið spáir því að hagkerfi landsins verði fyrir miklum varanlegum skaða og dragist saman um 6% fyrir árið 2030 gangi Bretar út úr Evrópusambandinu. Þetta er niðurstaða 200 blaðsíðna skýrslu sem gefin var út af ráðuneytinu í morgun og unnið hefur verið að síðustu mánuði.

Í grein sinni í breska dagblaðinu the Times segir George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, engan vafa á því að það muni hafa neikvæðar afleiðingar fyrir fjölskyldur og efnahag landsins að ganga út úr Evrópusambandinu. Hagkerfið verði lokaðra og Bretland fátækara til frambúðar.

Í skýrslunni er gengið út frá því að Bretar nái sambærilegum viðskiptasamningum við Evrópusambandið og Kanada og hefur gert.

Kosið verður um áframhaldandi veru Bretlands í sambandinu 23. júní næst komandi. Kannanir sýna að hnífjafnt er á milli þeirra sem vilja vera áfram og þeirra sem vilja útgöngu. Um fimmtungur kjósenda er óákveðinn.