Rannsóknarnefnd sem formenn stjórnmálaflokkanna eru sammála um að skipa til að rannsaka aðdraganda bankahrunsins fær víðtækt umboð í frumvarpi til laga sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Nefndinni er heimilt að kalla einstaklinga til funda við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og er viðkomandi þá skylt að mæta. Þá er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu.

Enn fremur: Ef einstaklingur af ásetningi eða gáleysi, eins og það er orðað í frumvarpinu, neitar að að veita nefndinni upplýsingar samkvæmt ákvæðum laganna skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Sömu refsingu varðar að gefa nefndinni rangar eða villandi upplýsingar eða skjóta undan, spilla eða eyða gögnum sem nefndin óskar að fá afhent.

Nefndin á að leita sannleikans

Verkefni nefndarinnar er að "leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða," eins og það er orðað í frumvarpinu.

Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Einn Hæstaréttardómari á að vera í nefndinni, sem og umboðsmaður Alþingis og hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða háskólamenntaður sérfræðingur.

Frumvarpið má í heild finna hér .