Fjármálaráðherra Bandaríkjanna hvetur Kínverja til að draga úr offramleiðslu á stáli sem hann segir valda ójafnvægi á heimsmörkuðum.

Offramleiðslan tærandi

Þetta sagði Jack Lew, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í Beijing fyrir árlegan fund Bandaríkjanna og Kína um verslun og öryggismál. Kína er stærsti stálframleiðandi í heiminum og hefur landið verið ásakað um að selja stál á undirverði.

„offramleiðslugeta hefur á endanum tærandi áhrif á hagkvæmni hagkerfis,“ sagði Lew „Það þýðir að auðlindirnar nýtast ekki rétt, á endanum þýðir það að eina leiðin til að selja vöruna sé á verði sem er undir því sem heimsmarkaðsverðið væri annars.“

Stálframleiðendur í Evrópu hafa haft miklar áhyggjur af því að ódýrt stál frá Kína flæði inná markaðinn, sem þeir segja hafi leitt til þess að stálverð hafi hrunið.