Forstjóri Virgin Atlantic, Sir Richard Branson, hefur sent bandarísku forsetaframbjóðendunum Obama og McCain bréf þar sem hann biðlar til þeirra að koma í veg fyrir hugsanlegt samstarf British Airways og American Airlines.

Richard segir að slíkur samningur myndi skaða samkeppni um flug milli Evrópu og Ameríku verulega og að það myndi koma niður á neytendum.

British Airways og American Airlines hafa hingað til ekki fengið neinar undanþágur frá samkeppnisyfirvöldum í Bandaríkjunum, en hjá British Airways eru menn bjartsýnir á að það takist núna á grundvelli Open Skies samnings.

Flugfélögin tvö vilja minnka rekstrarkostnað með samstarfi um flug milli heimsálfanna, en í bréfi sínu til Obama og McCain segir Richard Branson að lausn á vanda flugfélaga „felist ekki í samningum sem óhjákvæmilega leiða til minni samkeppni en áður og hærra verðs til neytenda“.