Seðlabanki Bandaríkjanna ætti að hugsa sig tvisvar um áður en hann ákveður að reyna ná verðbólgu niður fyrir tvö prósent, að mati hagfræðingsins Frederic S. Mishkin, sem situr í stjórn bankans. Í ræðu sem Mishkin flutti á ráðstefnu í San Fransisco um helgina gagnrýndi hann þá trú markaðsaðila að stefna Seðlabankans sé mörkuð með það að leiðarljósi að stefna að verðbólgu á bilinu 1 til 2 prósent, en um þessar mundir mælist verðbólga í Bandaríkjunum 2,25 prósent á ársgrundvelli.

Ummæli Mishkin eru líkleg til að vera upphafið að áköfum deilum um hvert verðbólgumarkmið Seðlabankans sé í raun og veru og hvað það ætti að vera, en ólíkt til dæmis Englandsbanka setur Seðlabanki Bandaríkjanna sér ekki opinbert verðbólgumarkmið. Í stjórn Seðlabankans sitja sjö meðlimir og á meðal þeirra ríkir ekki eining um hvert verðbólgumarkmið bankans eigi að vera. Þessi óvissa hefur síðan aftur áhrif á fjármálamarkaði sem eiga erfiðara með að átta sig á því hver viðbrögð Seðlabankans verða við þeim nýju hagtölum sem berast.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.