Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, segir að það sé grafalvarleg staða sem sé í landbúnaði og að sú staða sé af mannavöldum. Þetta kemur fram í aðsendri grein Guðna sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Ástæða þess segir hann vera tafr á því að koma á nýjum búvörusamningum og auk þess sem hann segir að það virðist sem að forystumenn landbúnaðarins vilji umbylta kerfinu og gefa framleiðsluna frjálsa. Guðni segir að þeir hafi ekki útskýrt hvað það þýði að gefa framleiðsluna frjálsa, en þessir aðilar vilji enga umgjörð en að ríkinu beri samt að koma með beingreiðslur eða stuðning.

Guðni varar einnig við því sem hann kallar „bankabændur“ en það eru þeir kúabændur sem vilji fækka og stækka mjólkurbúin, varpa greiðslumarkskerfinu fyrir róða og ná þannig framleiðslunni til sín. „Þeir vilja [...] vera stórir strákar með stór bú og eiga enga vini.“

Guðni skorar á Sigurð Inga Jóhannsson, landbúnaðarráðherra að finna lausn á búvörusamningum með formanni Bændasamtakanna. Einnig skorar hann á ríkisstjórnina á að salta nýgerðan tollasamning við Evrópusambandið og að meta hann upp á nýtt að loknum búvörusamningum, en hann segir að óbreyttur muni hann flytja mörg hundruð störf í iðnaði og landbúnaði frá Íslandi til ESB.