Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna segir að bóla sé ekki að myndast á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum heldur á skuldabréfamarkaði. Í viðtali við Bloomberg sagði hann að raunvextir til langs tíma séu allt of lágir og munu ekki haldast þannig til lengdar.

„Þegar vextir munu hækka, þá munu þeir hækka nokkuð hratt. Við erum að horfa upp á bólu á skuldabréfamarkaði en ekki á hlutabréfamarkaði," sagði Greenspan. „Raunverulega vandamálið er að þegar skuldabréfabólan springur, þá munu vextir til langs tíma hækka. Við erum að fara inn í tímabil samdráttarverðbólgu (e. stagflation) sem hefur ekki sést síðan á áttunda áratugnum. Þetta mun hafa slæm áhrif á eignaverð."

Greenspan er ekki sá eini sem er á þessari skoðun. Binky Chadha yfirmaður hjá Deutche Bank hefur sagt að vextir á Bandarískum ríkisskuldabréfum sé mikið lægri en hagvaxtatölur bendi til að þeir eigi að vera. Þá hefur Tom Porchelli, yfirhagfræðingur RBC bankans sagt að það sé einungis tímaspursmál hvenær verðbólguþrýstingur muni fara að hafa áhrif á skuldabréfamarkað.